Breski bankinn Barclays hefur ákveðið að draga úr bónusgreiðslum til starfsmanna fjárfestingabankasviðs bankans fyrir síðasta ár um tíu til tuttugu prósent. Er ákvörðunin sögð í samræmi við stefnu Jes Staleys bankastjóra um að bankinn skili árlega níu prósenta arðsemi á eigið fé sitt.

Bónuspottur fjárfestingabankasviðsins minnkaði um nærri fjórðung á fyrri hluta ársins, að því er segir í frétt Financial Times, en hann stækkaði þó aftur á síðari hluta ársins vegna góðrar afkomu sviðsins. Hagnaður þess jókst sem dæmi um ríflega fjörutíu prósent á þriðja fjórðungi ársins. Er talið að heildarpotturinn vegna síðasta árs verði þannig hátt í tuttugu prósentum minni en árið 2018.

Til samanburðar var bónuspotturinn stækkaður um níu prósent árið 2018 og nam hann þá alls 1,65 milljörðum punda, jafnvirði 270 milljarða króna.

Ákvörðunin markar nokkur tíðindi, að sögn Financial Times, enda lagði Tim Throsby, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Barclays, jafnan áherslu á að bónusgreiðslur til starfsmanna sviðsins yrðu ekki skertar, jafnvel þótt afkoma þess eða tekjur væru ekki í samræmi við væntingar. Honum var sagt upp störfum í fyrra eftir að það kastaðist í kekki á milli hans og Staleys en Throsby hafði látið í ljós þá skoðun sína að arðsemismarkmið bankastjórans væru óraunhæf.

Stjórnendur Barclays hafa sætt mikilli gagnrýni að undanförnu af hálfu fjárfestisins Edward Bramsons sem hefur kallað eftir því að bankinn dragi sig úr fjárfestingabankastarfsemi. Hann hefur látið hafa eftir sér að fjárfestingabankasviðið þurrki upp þann hagnað sem önnur arðbær svið bankans, svo sem viðskiptabankastarfsemin og greiðslukortareksturinn, skapi.

Bramson, sem er á meðal stærstu hluthafa Barclays, gaf kost á sér í stjórn bankans á síðasta ári en hafði ekki erindi sem erfiði.