Bolli Thoroddsen, forstjóri og eigandi Takanawa, segir að viðskiptahættir í Japan séu frábrugðnir því sem þekkist á Vesturlöndum. „Dæmi um það hve Japanir leggja mikla alúð í sín störf er reglan hvernig nafnspjöld eru afhent,“ segir hann íviðtali við sjónvarpsþátt Markaðarins sem sýndur verður klukkan sjö í kvöld á Hringbraut.

„Í Japan er ekki sama hvernig þú afhentir nafnspjald, tekur á móti því eða gengur frá því,“ segir Bolli sem hefur verið með annan fótinn í Japan í 24 ár og rekur 15 manna fyrirtæki sem er með skrifstofur í Japan og á Íslandi. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Takanawa veitti franska innviðasjóðnum Ardian ráðgjöf við kaup á Mílu af Símanum.

Bolli segir að í fyrsta lagi þurfi að afhenda nafnspjald þannig að nafn manns snúi að þeim sem taki við því, afhenda það með báðum höndum og hneigja sig á sama tíma. Það þurfi að taka á móti nafnspjaldi með báðum höndum, gæta þess að setja ekki þumal yfir nafn viðkomandi og loks megi ekki gleyma að hneigja sig. Það þurfi því bæði að hneigja sig þegar nafnspjald sé afhent og þegar tekið er á móti því.

Bolli segir að á meðan fundi standi megi alls ekki krota á nafnspjöldin eða troða þeim í rassvasann heldur þurfi að stilla þeim upp í réttri röð á móti hverjum og einum sem sé á fundinum.

„Það getur verið flókið þegar það eru tólf manns á móti þér,“ bendir hann á.

Bolli var eitt sitt á fundi þar sem slíta þurfti samningsviðræðum. Með í för var breskur lögfræðingur. „Hann varð svo stressaður að hann tók öll nafnspöld þeirra sem við vorum í viðræðum við, um 12 manns, og fór að stokka þau eins og spilastokk. Það varð allt vitlaust í fundinum,“ segir hann.

Bolli segir að sætaskipan á fundi með Japönum sé afar flókin. Tvær lykilreglur í þeim efnum megi rekja til samúræjatímabilsins. Annars vegar sú að það megi aldrei láta gest sitja með bakið við hurð. „Það gæti komið óboðinn samúræi og skorið hann á háls. Þessi reglan er enn í gildi í dag,“ segir hann.

Hins vegar eigi hæstsetti gesturinn sitja hvað lengst frá hurðinni, helst í horninu en ekki í miðjunni eins og oft er á Vesturlöndum. „Ef það kæmi óvænt hópur af samúræjum og ætlaði að myrða gestinn þurfa þeir að komast í gegnum alla hina áður,“ segir Bolli.

Komið að fjölbreyttum verkefnum

Takanawa átti meðal annars frumkvæði að því ásamt fyrrverandi starfsmönnum Actavis að kaupa starfsemi Actavis á Íslandi og koma í kjölfarið samheitalyfjafyrirtækinu Coripharma á fót. Cori þýðir ís á japönsku.

Árið 2020 kom Takanawa að gerð samnings, sem metinn er á 500 milljónir Bandaríkjadala, á milli bandarískra og japanskra lyfjafyrirtækja um að selja blóðfitulyf sem lækka kólesteról í Japan.

Takanawa hefur verið með umboðið fyrir Bioeffect í Japan frá árinu 2015. Hlutverk Takanawa er að annast markaðssetningu, dreifingu og sölu á vörunum þar í landi. Bioeffect er meðal annars í boði í hjá stærstu fríhöfnum landsins, tveimur stærstu flugfélögunum ANA og JAL og í verslunum.

Á árinu 2020 tókst Takanawa að koma Ísey Skyr í 50.000 matvöruverslanir í Japan með samstarfsaðila sem er eitt stærsta matvælafyrirtæki landsins. Ári síðar vann það að því að koma danska ísnum Hansen á markað í Japan með stórri matvælakeðju.

Árið 2015 kom Takanawa að fjármögnum Þeistareykjarvirkjunar, sem er 90 MW jarðvarma virkjun, fyrir Landsvirkjun með japönskum bönkum.

Árið 2019 tók fyrirtækið þátt í að selja jarðvarma túrbínu frá Fuji Electric til HS Orku fyrir Reykjanesvirkjun. Takanawa er einn af umboðsaðilum Fuji á Íslandi.

Þátturinn í heild sinni