Það er hægt að segja „þetta reddast“ á japönsku en það segir það enginn. Þetta sagði Bolli Thoroddsen, forstjóri og eigandi Takanawa, í viðtali við sjónvarpsþátt Markaðarins sem sýndur var í gærkvöldi á Hringbraut.

Bolli, sem hefur verið með annan fótinn í Japan í 24 ár og rekur 15 manna fyrirtæki með skrifstofur í Japan og á Íslandi, segir að Japanir undirbúi verkefni sín vel.

Í viðtalsbút hér að neðan má heyra Bolla segja „þetta reddast“ og „viðskiptavinurinn er guð“ á japönsku.

Bolli var skiptinemi í Japan eftir fyrsta árið í MR og bjó hjá fjölskyldu þar sem faðirinn var, að sögn Bolla, strangur stærðfræðikennari. „Það var ekkert annað í boði en að ná góðum tökum á tungumálinu sem varð þess valdandi að ég komst í japanskan háskóla,“ segir hann.

Komið að fjölbreyttum verkefnum

Takanawa, fyrirtæki Bolla, hefur komið að fjölda verkefna. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Takanawa veitti franska innviðasjóðnum Ardian ráðgjöf við kaup á Mílu af Símanum.

Takanawa átti meðal annars frumkvæði að því ásamt fyrrverandi starfsmönnum Actavis að kaupa starfsemi Actavis á Íslandi og koma í kjölfarið samheitalyfjafyrirtækinu Coripharma á fót. Cori þýðir ís á japönsku.

Árið 2020 kom Takanawa að gerð samnings, sem metinn er á 500 milljónir Bandaríkjadala, á milli bandarískra og japanskra lyfjafyrirtækja um að selja blóðfitulyf sem lækka kólesteról í Japan.

Takanawa hefur verið með umboðið fyrir Bioeffect í Japan frá árinu 2015. Hlutverk Takanawa er að annast markaðssetningu, dreifingu og sölu á vörunum þar í landi. Bioeffect er meðal annars í boði í hjá stærstu fríhöfnum landsins, tveimur stærstu flugfélögunum ANA og JAL og í verslunum.

Á árinu 2020 tókst Takanawa að koma Ísey Skyr í 50.000 matvöruverslanir í Japan með samstarfsaðila sem er eitt stærsta matvælafyrirtæki landsins. Ári síðar vann það að því að koma danska ísnum Hansen á markað í Japan með stórri matvælakeðju.

Árið 2015 kom Takanawa að fjármögnum Þeistareykjarvirkjunar, sem er 90 MW jarðvarma virkjun, fyrir Landsvirkjun með japönskum bönkum.

Árið 2019 tók fyrirtækið þátt í að selja jarðvarma túrbínu frá Fuji Electric til HS Orku fyrir Reykjanesvirkjun. Takanawa er einn af umboðsaðilum Fuji á Íslandi.

Þátturinn í heild sinni