Íslendingar virðast bíða í ofvæni eftir rýmkun ferðatakmarkanna.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að margir séu búnir að bóka flug eftir að Icelandair byrjaði að auglýsa daglegar ferðir til Kaupmannahafnar.

„Já, við getum sagt að bókanir hafi tekið kipp við þessar fréttir,“ segir Ásdís Ýr.

Icelandair stefnir á að fljúga til Kaup­manna­hafnar, Osló, Frankfurt, Ber­lín og síðar Amsterdam eftir að landið opnar á ný. Einhver óvissa ríkir með ferði til Stokkhólms og London vegna kórónaveirufaraldursins. Flugfélagið byrjaði á því að auglýsa ferðir til Kaupmannahafnar.

Þá er vert að nefna að þrátt fyrir að Íslendingar megi ferðast til Danmerkur eftir 15. júní þá má ekki gista í borginni sjálfri.

Heimilt verður að heimsækja höfuðborgina og borða á veitingastöðum þar en ferðamenn þurfa að sýna fram á að hafa bókað gistingu í minnst sex nætur á hótelum, gistiheimilum eða tjaldsvæðum fyrir utan borgina.

Dönsk stjórnvöld ætla að fara varlega í opnun landsins og er ekki búist við að ferðamenn frá fleiri löndum bætist við fyrr en í haust.