Mannekla á mörgum flugvöllum erlendis hefur valdið mikilli röskun á flugi og hefur Ice­landair ekki farið varhluta af þessu ástandi. Flugfélagið hefur gripið til ýmissa aðgerða til að áhrifin af þessu verði sem minnst.

Til dæmis hefur Icelandair sent frá sér hlaðmenn með áætlunarflugi til Amsterdam, þar sem ástandið hefur verið hvað mest krefjandi. Þá hefur það einnig sent starfsfólk út til að greiða úr hinum ýmsu málum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Ice­landair, segir að ástandið á flugvöllum í Evrópu hafi haft mikil áhrif á félagið.

„Þetta hefur haft áhrif á okkar starfsemi en þrátt fyrir að við höfum ekki náð okkar markmiðum hvað varðar stundvísi, þá erum við í góðri stöðu til að bregðast við,“ segir Bogi og bætir við að leiðakerfi félagsins sé þétt og sterkt.

„Við erum með marga áfangastaði og tíðar ferðir þannig að við getum brugðist við og komið okkar farþegum á áfangastaði. Okkar starfsfólk hefur unnið frábæra vinnu og sýnt útsjónarsemi. Okkar markmið er að þjónusta farþega í þessum krefjandi aðstæðum.“

Icelandair hagnaðist um hálfan milljarð króna á öðrum ársfjórðungi og gerir félagið ráð fyrir góðri afkomu á þriðja ársfjórðungi og hagnaði á seinni hluta ársins. Heildartekjur félagsins námu 42,5 milljörðum króna sem er aukning um 32,5 milljarða króna, aðallega vegna aukningar í farþegatekjum. Samningur um tvær B737 MAX flugvélar var undirritaður ásamt viljayfirlýsingu um fjórar vélar til viðbótar sem styður við vöxt félagsins.

„Við höfum ekki skilað hagnaði á öðrum ársfjórðungi í fimm ár. Þetta sýnir bara að eftirspurnin er að taka við sér og öll sú þrotlausa vinna sem starfsfólk hefur unnið er að skila sér.“

Bogi segist vongóður um að félagið muni skila góðri afkomu á þriðja ársfjórðungi.

„Horfurnar eru góðar. Eftirspurnin er mikil og bókunarstaðan góð. Þó verður að halda því til haga að fjórði fjórðungur er yfirleitt veikari í flugrekstri en við gerum þó ráð fyrir hagnaði á seinni helmingi ársins.“