Félag í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, sem eru eigendur heildverslunarinnar Johan Rönning, hefur meira en tvöfaldað eignarhlut sinn í Icelandair Group á allra síðustu vikum og er nú áttundi stærsti hluthafi flugfélagsins með tæplega tveggja prósenta hlut.

Þau hjónin, sem eiga hlutinn í gegnum félagið Bóksal ehf. sem var stofnað í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandir fyrr á árinu, eru stærstu einkafjárfestarnir í hlutahafahópi Icelandair. Miðað við núverangi gengi bréfa félagsins er eignarhluturinn – 559 milljónir hluta að nafnverði – metinn á um 970 milljónir króna.

Bogi og Linda komu ný inn í eigendahóp Icelandair þegar útboð félagsins fór fram um miðjan september þegar þau keyptu 252 milljónir hluta – á genginu einn – sem skilaði þeim um 0,89 prósenta hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað um meira en 70 prósent frá þeim tíma og stendur gengi bréfa félagsins nú í 1,74 krónum á hlut.

Aðrir helstu einkafjárfestarnir í Icelandair eru félagið Sólvöllur, sem er í eigu Pálma Haraldssonar, fyrrverandi stjórnarmanns í Icelandair og eigandi ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar, með 1,95 prósenta hlut og þá er breski fjárfestirinn John Shrimpton, sem hóf að kaupa í félaginu í liðnum mánuði, með rúmlega 1,2 prósenta hlut.

Bogi er eigandi og stjórnarformaður Johan Rönning og þá er félag í eigu hans og eiginkonu meðal annars í hópi stærstu hluthafa Kviku banka.

Shrimpton, sem er annar af stofnendum asíska vogunarsjóðsins Dragon Capital, er í dag stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópi félagsins en bandaríski fjárfestingasjóðurinn Par Capital, sem var um tíma stærsti hluthafi Icelandair, seldi allan 1,5 prósenta hlut sinn um miðjan október síðastliðinn.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), sem tók þátt í hlutafjárútboði Icelandair fyrir tvo milljarða, hefur á undanförnum vikum minnkað verulega við eignarhlut sinn og selt sem nemur nærri þriggja prósenta hlut í félaginu. LSR er nú annar stærsti hluthafi Icelandair með um fimm prósenta hlut en Gildi lífeyrissjóður, sem hefur minnkað lítillega við hlut sinn frá útboðinu, er stærstur með um 6,34 prósenta eignarhlut.

Markaðsvirði Icelandair Group stendur nú í tæplega 50 milljörðum króna