Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir ummæli Gylfa Zoega, nefndarmanns í peningastefnunefnd, um Icelandair í morgun hafa verið ógætileg. Staða Icelandair hvað lausafé og eigið fé varðar sé sterk.

„Mér finnst þetta ógætileg ummæli. Þeir sem fjalla um þessi mál, með þessum hætti og á þessum vettvangi bera mikla ábyrgð og verða að vanda málflutning sinn,“ segir Bogi Nils í samtali við Fréttablaðið.

Á opnum fundi peningastefnunefndar með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun bað Gylfi þingmenn um að fylgjast með stöðu Icelandair. „Ég myndi sérstaklega beina athygli ykkar að því stóra flugfélagi sem við byggjum svo mikið á. Hvað er að gerast þar? Ef við reiknum fram í tímann, hvenær verður eigið féð þar komið á hættulegt stig?“ sagði Gylfi á fundinum.

Bogi Nils segir að eðlilegra hefði verið að leita til Icelandair til að fá upplýsingar um stöðuna.

„Fyrst að það var verið að ræða um okkar Icelandair félag á opinberum vettvangi þá hefði verið eðlilegra að ræða við okkur og fara yfir stöðuna áður. Það var ekki gert og ég veit ekki hvaða greiningu viðkomandi gerði áður en hann setti þetta fram með þessum hætti,“ segir Bogi Nils og bendir á að Icelandair sé vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður.

„Það er og hefur verið okkar stefna að vera með bæði sterka lausafjárstöðu og sterka eiginfjárstöðu til að bregðast við ýmsum ytri þáttum sem geta komið upp og haft neikvæð áhrif. Þannig er flugrekstur. Við fylgjum þessari stefnu markvisst og í lok júní vorum við með tæplega 30 milljarða króna í lausafé, að meðtöldum óádregnum lánalínum, og yfir 50 milljarða í eigið fé. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður.“