John Barnett, fyrr­verandi gæða­eftir­lits­full­trúi banda­ríska flug­véla­fram­leiðandans Boeing, full­yrðir að vanda­mál séu í súr­efnis­kerfi 787 Dream­liner vélum fé­lagsins, að því er fram kemur á vef BBC.

Barnett segir að vanda­málin gætu þýtt að far­þegar um borð gætu verið skildir eftir án súr­efnis ef skyndi­leg þrýstings­minnkun yrði um borð í far­þega­rými vélarinnar. Barnett full­yrðir að fyrir­tækið hafi verið að flýta sér við fram­leiðslu vélarinnar og því hafi öryggi ekki verið gætt í hví­vetna.

Hann segist hafa upp­götvað vanda­málin við súr­efnis­kerfin árið 2016. Í öllum flug­vélum séu súr­efnistankar sem inni­haldi súr­efni og deili þeim út í gegnum and­lits­grímur til far­þega ef þrýstingur fellur skyndi­lega í vélinni. Án slíks gætu far­þegar í 35 þúsund feta hæð misst með­vitund á undir mínútu. Í 40 þúsund fetum á tuttugu sekúndum, að því er segir í um­fjöllun BBC.

Afar sjald­gæft er að skyndi­leg þrýstings­minnkun verði um borð í far­þega­vélum. Slíkt gerist þó stundum líkt og í apríl í fyrra þegar brak lenti í vél Sout­hwest Air­lines með þeim af­leiðingum að gat kom á glugga vélarinnar. Einn far­þega lést vegna á­verka en hinir far­þegarnir lifðu af þökk sé súr­efnis­kerfi vélarinnar.

Barnett full­yrðir að þegar 300 slíkra kerfa voru prófuð í að­stæðum sem gætu komið upp þegar þrýstings­minnkun verður. Hann full­yrðir að af þeim 300 hafi 75 ekki virkað sem skyldi. Hann greip til prófananna eftir að hann tók eftir því að súr­efniskútar úr gömlum vélum höfðu ekki opnað sig sem skyldi.

Þá segir Barnett jafn­framt að biluðum hlutum séu vís­vitandi komið fyrir í vélum á færi­böndum fyrir­tækisins í einni af verk­smiðjum þess. For­svars­menn fyrir­tækisins hafa sagt mála­til­búnað Barnett þvætting, fyllsta öryggis sé gætt í allra þeirra verk­smiðjum.

Barnett var eins og áður segir gæða­eftir­lits­full­trúi hjá fyrir­tækinu og vann fyrir flug­véla­fram­leiðandann í 32 ár en fór á eftir­laun í mars árið 2017. Hann vann meðal annars í verk­smiðju Boeing í Norður Charleston í Suður Karo­línu, ein tveggja sem fram­leiddi 787 Dream­liner vélarnar.

Boeing hefur eins og áður segir þver­tekið fyrir á­sakanir Barnett. For­svars­menn fyrir­tækisins viður­kenna þó að vanda­mál hafi komið upp við súr­efnistanka árið 2017. Þeir súr­efnistankar hafi þó allir verið teknir úr notkun og full­yrðir flug­véla­fram­leiðandinn að ekkert sé að nýjum slíkum tönkum.

Banda­ríski flug­véla­fram­leiðandinn hefur undan­farið sætt æ meiri gagn­rýni fyrir öryggis­mál, í kjöl­far vanda­mála í flug­stýri­kerfum Boeing 737 Max 8 sem olli tveimur mann­skæðum flug­slysum fyrr á árinu. Vélarnar hafa verið kyrr­settar síðan þá en fé­lagið býst við þeim aftur í loftið í janúar, miðað við nýjustu fregnir.