Boeing tapar tæplega 5 milljörðum Bandaríkjadala vegna kyrrsetningar 737 MAX vélanna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Boeing birti í dag.

Boeing greindi frá því í apríl að tekjutap vegna kyrrsetningar 737 Max um heim allan næmi einum milljarði dollara. Boeing segir nú að 4,9 milljarðir dollarar verði kostnaður til að bæta upp fyrir mannlegt og fjárhagslegt tjón vegna flugslysanna og kyrrsetningar vélanna.

Kostnaðurinn mun draga úr heildartekjum flugvélaframleiðandans um 5,6 milljarða dollara á næsta ársfjórðungi. Kyrrsetningin hefur einnig haft áhrif á Íslandi en á dögunum sagði Icelandair upp 45 flugmönnum.

Forsvarsmenn Icelandair hafa íhugað nýja stefnu í rekstri flugflotans, meðal annars að skipta Boeing þotum út fyrir Airbus þotur.