Icelandair gerir ekki ráð fyrir að Boeing 737 MAX flug­vélar verði komnar aftur í rekstur fyrr en í fyrsta lagi í lok febrúar 2020. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu Icelandair. Á­kvörðunin mun ekki koma til með að hafa mikil á­hrif á flug­á­ætlun vetrarins að sögn Icelandair en þegar var búið að gera fjölda af á­herslu­breytingum á flug­leiðum fé­lagsins.

„Eins og við höfum áður sagt, teljum við ó­lík­legt að MAX vélarnar verði komnar aftur í rekstur fyrir lok þessa árs. Við viljum hins vegar lág­marka á­hrif á far­þega okkar og fram­lengja þetta tíma­bil með góðum fyrir­vara, enda gott svig­rúm hjá okkur á þessum árs­tíma að nýta aðrar vélar í flotanum hjá okkur,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group.

Fylgjast með þróun mála


Fé­lagið hyggst halda á­fram að fylgjast með þróun mála varðandi af­léttingu kyrr­setningar MAX vélanna. Yfir­grips­mikið og vandar ferli fer nú fram sem stýrt er af al­þjóða flug­mála­yfir­völdum með það að mark­miði að tryggja öryggi vélanna og koma þeim aftur í rekstur.

Síðast­liðinn septem­ber gerði Icelandair Group bráða­birgða­sam­komu­lag við Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem fé­lagið hefur orðið fyrir vegna kyrr­setningar MAX vélanna. Á­fram­haldandi við­ræður við Boeing um að fá heildar­tjón vegna kyrr­setningarinnar bætt standa enn yfir.