Tekjumörk Landsnets munu taka nokkrum breytingum samkvæmt frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og orkumálaráðherra, til breytinga á raforkulögum. Frumvarpið mun birtast í samráðsgátt stjórnvalda í þessari viku. Tekjumörk Landsnets hafa hingað til verið byggð á reiknaðri arðsemi Landsnets, sem byggir svo aftur á vegnum fjármagnskostnaði fyrirtækisins sem skilgreindur er í reglugerð frá árinu 2016. Gagnrýnendur hafa haldið því fram að útreikningur vegins fjármagnskostnaðar Landsnets sé í eðli sínu gallaður, meðal annars af þeim sökum að grunnvextir útreikningsins byggjast á hlaupandi tíu ára meðaltali ýmissa breyta, svo sem ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa og skuldatryggingaálagi ríkissjóðs Íslands. Þetta mun nú breytast.

Stærstu raforkuframleiðendur landsins, Samtök iðnaðarins og aðrir hagsmunaaðilar á raforkumarkaði, hafa sagt að þetta langa viðmiðunartímabil geti valdið því að arðsemi sérleyfisfyrirtækja á raforkumarkaði sé nokkuð umfram eðlilega ávöxtunarkröfu. Einkum og sér í lagi í því lágvaxtaumhverfi sem nú er við lýði. Í frumvarpinu verður það lagt til að tímabil grunnvaxta sem litið er til verði stytt, en þó ekki meira en svo að sveiflujöfnun verði tryggð í tekjumörkum sérleyfisfyrirtækja sem annast flutning og dreifingu raforku.

Á hinum Norðurlöndunum er viðmiðunartímabil grunnvaxta í þessum efnum allt frá þremur mánuðum og upp í fjögur ár, en í öllum tilfellum töluvert styttra en á Íslandi. Ætla má að ráðuneytið líti til Norðurlandanna við útfærsluna á lengd tímabils grunnvaxta í nýja frumvarpinu.

Frumvarp iðnaðarráðherra kemur fram í kjölfar greiningarvinnu Deloitte, sem iðnaðarráðuneytið fékk til að skoða regluverk og fyrirkomulag flutnings og dreifingu raforku á Íslandi. En þýska greiningarfyrirtækið Fraunhofer hafði uppi ábendingar um fyrirkomulag flutnings raforku í skýrslu sinni um samkeppnishæfni raforkumarkaðar á Íslandi með tilliti til samkeppnishæfni stóriðju. Ráðuneytinu bárust drög að skýrslunni undir lok síðasta árs.

„Allar þær lagabreytingar og aðgerðir sem hér eru lagðar til eiga að auka skilvirkni og hagkvæmni á íslenskum raforkumarkaði og er ætlað að vera ívilnandi fyrir notendur raforkukerfisins, án þess þó að rekstrargrundvelli mikilvægra innviða sé ógnað til skemmri eða lengri tíma. Ég lít á þetta sem umbótaverkefni fyrir orkumarkaðinn hér á landi,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Efling Orkustofnunar er ekki síst mikilvægur hluti af þessum lagabreytinga- og aðgerðapakka sem nú verður lagður fram í samráðsgátt stjórnvalda. Svo verður það verkefni nýs orkumálastjóra að leiða stofnunina inn í nýja tíma og takast á við þau nýju og auknu verkefni sem verða nú á borði stofnunarinnar. Orkumarkaðurinn er að taka hröðum breytingum og því mikilvægt að laga- og rekstrarumhverfi hans sé með sem hagkvæmustum hætti,“ bætir ráðherrann við.


Einföldun kerfisáætlunar


Kerfisáætlun Landsnets hefur verið töluvert til umræðu á undanförnum vikum. Fyrirtækið leggur fram kerfisáætlun einu sinni á ári þar sem fjárfestingar næstu ára eru tilgreindar. Kerfisáætlunin hefur ákveðna stöðu að lögum, meðal annars gagnvart valdheimildum sveitarfélaga er snúa að skipulagsmálum. Af þeim sökum eru miklar kröfur gerðar til kerfisáætlana með tilliti til gagnsæis, samráðs og upplýsingagjafar. Ferlið er því tímafrekt, en þess má geta að kerfisáætlun áranna 2021-2029, sem lögð var fram af Landsneti síðastliðið sumar, hefur enn ekki hlotið blessun Orkustofnunar. Að óbreyttu hefst svo vinna við næstu kerfisáætlun nú undir lok útmánaða og ferlið byrjar upp á nýtt.

Allar þær lagabreytingar og aðgerðir sem hér eru lagðar til eiga að auka skilvirkni og hagkvæmni á íslenskum raforkumarkaði.

Í nýja frumvarpinu verður meðal annars lagt til að Landsnet leggi fram kerfisáætlun á að minnsta kosti tveggja ári fresti frekar en árlega. Þannig þurfi ekki að tilgreina hverja einustu fjárfestingu sem Landsnet ræðst í, heldur marki kerfisáætlun lengri tíma stefnu og taki helst til veigameiri framkvæmda.


Eftirlit með fjárfestingum


Eftirlit með fjárfestingum sérleyfishafa verður aukið. Orkustofnun mun þannig hafa vald til að ráðast í frumkvæðisathuganir á einstökum framkvæmdum sérleyfisfyrirtækja. Orkustofnun mun líka kanna hvort eignastofn sé með eðlilegum hætti. Með þessu á að tryggja að kostnaður sé í samræmi við fjárfestingaráætlanir og koma í veg fyrir svokallaða „gullhúðun“ eignastofns, en undir núverandi kerfi hafa sérleyfisfyrirtæki hvata til að þenja út eignastofn sem leiðir af sér hækkun tekjumarka.

Engar heimildir eru í núverandi lögum fyrir Orkustofnun til að hafa eftirlit með fjárfestingum dreifiveitna, en núverandi kerfi er talið fela í sér hvata til offjárfestinga sem leiðir af sér áðurnefndar heimildir til hækkun gjaldskráa. Enda er áhætta af starfsemi dreifiveitna takmörkuð vegna náttúrulegrar einokunarstöðu þeirra og arðsemi þeirra tryggð frekar í sessi með hækkandi eignastofni.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Landsnet færist í eigu ríkisins 2022


Gengið verður frá færslu á eignarhaldi Landsnets frá núverandi hluthöfum til ríkissjóðs fyrir 1. júlí 2022, að því er kemur fram í frumvarpinu. Núverandi eigendur Landsnets eru Landsvirkjun (64,7 prósent), RARIK (22,5 prósent), Orkuveita Reykjavíkur (6,8 prósent) og Orkubú Vestfjarða (6 prósent).

Landsnet var stofnað á grundvelli EES-samningsins, sem kvað meðal annars á um aðskilnað framleiðslu, flutnings og dreifingar raforku. Fram til ársins 2005 annaðist Landsvirkjun rekstur flutningskerfa raforku. Hingað til hefur Ísland verið með undanþágu í þessum efnum.

Núverandi eigendur Landsnets og fulltrúar hins opinbera áttu síðasta fund um yfirfærslu eignarhalds Landsnets í janúar á þessu ári og undirrituðu viljayfirlýsingu um að hefja formlegar samningaviðræður um málið.

Aukið tillit tekið til millistórra notenda

  • Tekið verði tillit til mismunandi þarfa notendahópa. Núverandi lagaumgjörð miðast við annars vegar stórnotendur og hins vegar alla hina. Á síðustu árum hafa millistórir notendur rutt sér til rúms á Íslandi, svo sem gagnaver. Gagnaver falla tæplega í hóp stórnotenda á sama hátt og álver, eða í flokk smásöluviðskiptavina. Einnig verður litið til stöðu smávirkjana.
  • Orkustofnun hafi umsjón og eftirlit með varaafli um allt land.
  • Rekstrarkostnaður sérleyfisfyrirtækja verði skilgreindur nánar og honum skipt niður í viðráðanlegan, óviðráðanlegan og ófyrirséðan kostnað.
  • Orkustofnun og atvinnuvegaráðuneyti auki framboð almenns fræðsluefnis um raforkumál, stjórnun og rekstur orkufyrirtækja.
  • Allar greiningar og ákvarðanir er snúa að setningu tekjumarka, auk ákvarðana, útreikninga, skýrslna og greininga sem að sama máli snúa verði birtar á vefsíðu Orkustofnunar.
  • Sameining RARIK og Orkubús Vestfjarða verði könnuð, en bæði fyrirtæki eru dreifiveitur sem eru í fullri eigu ríkisins.
  • Orkustofnunar til setningar hagræðingarkröfu gagnvart sérleyfisfyrirtækjum verði skýrari og markvissari.