Viðskipti Forstjóri Norðuráls segir fyrirtækið reiðubúið að ráðast í fjárfestingu fyrir vel á annan tug milljarða ef það fæst nýr raforkusamningur hjá Landsvirkjun til möguleg allt að tuttugu ára þar sem kjörin eru sambærileg meðalverði til stóriðjunnar á síðasta ári.

„Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju um 23 dalir á megavattstund,“ segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri álversins, í ítarlegu viðtali við Markaðinn.

„Eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál. Þó Nord Pool-verðið sé lægra en það í augnablikinu þá værum við reiðubúin að ganga út úr núgildandi samningi við Landsvirkjun [sem gildir til 2023] gegn því að fá nýjan samning til lengri tíma,“ útskýrir Gunnar.


Hann segir að unnið hafi verið að því í mörg ár að auka virði álframleiðslunnar á Grundartanga.

„Við höfum horft til þess að fara út í framleiðslu á svokölluðum álboltum, en til þess að geta gert það þurfum við að fara út í stóra fjárfestingu sem gæti numið um 14 milljörðum.

Til að fara í slíka fjárfestingu þyrfti Norðurál orkusamning til tíu eða tuttugu ára. Við erum ekki að biðja um afsláttarkjör eða niðurgreiðslu, við viljum bara fá sama verð og meirihluti raforku er seldur á núna á Íslandi,“ segir Gunnar.

Hann telur mögulegt að fara hratt af stað með verkefnið, jafnvel innan nokkurra vikna. „Þetta myndi taka um það bil tvö ár og þarna yrðu til 80 til 90 störf á byggingartímanum og svo 40 varanleg störf. Við teljum okkur geta fjármagnað verkefnið, en aðeins ef við fáum ásættanleg kjör hjá Landsvirkjun og öðrum raforkuframleiðendum til lengri tíma.“