Vel hefur gengið hjá kynlífstækjaversluninni Blush undanfarið en félagið BSH15 ehf. sem heldur utan um rekstur fyrirtækisins hagnaðist um 40 milljónir á síðasta ári samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá.

Tekjur fyrirtækisins námu alls 221 milljón króna og eykst lítillega á milli ára eða um 10 prósent. Eignir félagsins námu 142 milljónir króna, eigið fé 115 milljónir króna en skuldir voru um 26 milljónir. Langtímaskuldir voru engar.

BSH15 ehf. rekur bæði netverslunina blush.is og verslunina Blush sem staðsett er í Hamraborg í Kópavogi.

Eigandi fyrirtækisins er Gerður Huld Arinbjarnardóttir en hún stofnaði kynlífstækjaverslunina Blush fyrir tíu árum þegar hún var 21 árs í fæðingarorlofi.
Arðgreiðsla til Gerðar á rekstrarárinu 2019 nam rúmum 27 milljónum króna en hún er eini hluthafinn.

Í viðtali við Morgunblaðið í lok október á þessu ári sagði Gerður að kynlífstæki væru vissulega að rjúka út á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Sagði hún í viðtalinu að veltan væri að aukast um 30% frá fyrra ári.