Vextir á ríkisskuldabréfum til tíu ára ( (RB31) hækkuðu um 11 punkta í dag og eru komnir upp í 3,24 prósent samanborið við 2,6 prósent fyrir tveimur mánuðum. Hafa vextir þessara ríkisbréfa ekki verið hærri frá því að lok janúar þegar meginvextir Seðlabankans voru 3 prósent.

BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu, seldi ríkisbréf fyrir meira en 4 milljarða króna í gær samkvæmt heimildum Markaðarins. Sjóðurinn hélt uppteknum hætti í dag og seldi fyrir nærri 2 milljarða. Á aðeins einum mánuði hefur Bluebay selt ríkisbréf fyrir vel á þriðja tug milljarða króna.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands taldi á fundi sínum fyrr í þessum mánuði ekki vera ástæðu til „umfangsmikillar [magnbundinnar] íhlutunar þar sem framboð á ríkisbréfum hefði ekki aukist til muna og verðmyndun og virkni markaða verið eðlileg. Nefndarmenn voru sammála um að þótt langtímaávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefði þokast upp að undanförnu væri ekki tilefni til kröftugri viðbragða að sinni.“

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem var birt í gær en þar segir einnig að allir nefndarmenn hafi verið þeirrar skoðunar að halda ætti meginvöxtum bankans óbreyttum í einu prósenti.

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða í mars, en frá þeim tíma hefur hann hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir.

Í frétt Markaðarins í síðustu viku kom fram að fjárfestar hefðu áhyggjur af innlendri fjármögnunarþörf ríkissjóðs á komandi árum og að hún myndi að óbreyttu þrýsta vöxtum á skuldabréfamarkaði til hækkunar á sama tíma og efnahagshorfur fara versnandi.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, sagði í samtali við Markaðinn að skilaboðin sem markaðurinn væri líklega að senda væru „að Seðlabankinn þurfi að byrja að tala minna um magnbundna íhlutun [kaup á ríkisskuldabréfum] og þess í stað að framkvæma meira.“