BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu, seldi í dag íslensk ríkisskuldabréf fyrir liðlega 11 milljarða króna. Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna hefur lækkað vegna væntinga um að Seðlabankinn komi nú inn á markaðinn af krafti.

BlueBay, sem hóf innreið sína á íslenska skuldabréfamarkaðinn árið 2015 og hefur verið einn stærsti eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa, hefur nú selt öll íslensk ríkisskuldabréfa sín samkvæmt heimildum Markaðarins. Salan í dag nær til flokkanna RB21, 22, 25, 28, og 31 en frá byrjun ágúst hefur sala BlueBay á íslenskum ríkisskuldabréfum numið nærri 50 milljörðum króna. Fjármálafyrirtækið Fossar markaðir sáu um söluna fyrir BlueBay samkvæmt heimildum Markaðarins.

Hækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á undanförnum vikum og mánuðum, sem á sér enga hliðstæðu þegar litið er til samanburðarríkja, má meðal annars rekja til umfangsmikillar sölu erlendra fjárfestingarsjóða á ríkisskuldabréfum, einkum BlueBay.

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa á lengri endanum hefur hins vegar lækkað í dag um 7-9 punkta en það skýrist af væntingum markaðarins um að Seðlabanki Íslands muni hefja magnbundna íhlutun af fullum kraft, nú þegar BlueBay hefur losað um öll ríkisskuldabéf sín.

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum, svokallaða magnbundna íhlutun, fyrir allt að 150 milljarða í mars, en þannig vildi bankinn tryggja að fjármagnsþörf ríkisins myndi ekki þrýsta upp ávöxtunarkröfunni. Frá þeim tíma hefur bankinn hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir. Talið er að Seðlabankinn hafi ákveðið að vera í biðstöðu þangað til þrýstingur á markaði vegna sölu BlueBay minnkaði.

Seðlabankinn mun hafa selt gjaldeyri fyrir hátt í 70 milljónir evra vegna skuldabréfaviðskiptanna í dag til þess að sporna gegn því að þau myndu veikja gengið.