Staða fyrirtækja er þó mjög mismunandi milli greina og raunar innan greina í sumum tilfellum. Mörg fyrirtæki, til dæmis í verslun og þjónustu, hafa sjaldan eða aldrei dafnað betur en einmitt í veirukófinu, á meðan önnur hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum sem hafa reynt mikið á fjárhagsstöðu þeirra.

Á heildina litið virðist árið 2021 hafa komið betur út fyrir atvinnulífið og rekstur ríkissjóðs en búist var við. Aðilar á vinnumarkaði eru uggandi um komandi ár, meðal annars vegna mikils verðbólguþrýstings sem kemur utan úr heimi og þess að seint á árinu renna Lífskjarasamningarnir sitt skeið.

Hraður bati

Markaðurinn leitaði álits nokkurra aðila á stöðu mála á yfirstandandi ári og horfum fyrir árið 2022.

„Óneitanlega er nokkuð óvænt að við skulum vera komin á svipaðar slóðir og í fyrra með hertar sóttvarnaraðgerðir í jólamánuðinum,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Hann telur efnahagsbata kominn á skrið þrátt fyrir að faraldurinn geisi enn. „Atvinnuástandið hefur batnað hraðar en við þorðum að vona fyrir ári og atvinnuleysið nálgast stöðuna fyrir faraldur.“

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Jón Bjarki nefnir að einkaneysla hafi verið sterk á lokamánuðum ársins og kortavelta meiri en í nóvember 2019. „Góðu heilli virðast flest heimili hafa sloppið við fjárhagslegar búsifjar vegna Covid, þótt það sé auðvitað lítil huggun þeim sem hafa lent í verulegum tekjumissi eða jafnvel misst vinnuna um lengri eða skemmri tíma. Sem betur fer er fyrir vikið meira svigrúm til að bæta síðarnefnda hópnum tekjumissinn.

Annað gleðiefni er að þrátt fyrir allt hefur ferðaþjónustan náð vopnum sínum að hluta. Það stefnir í að um það bil 700 þúsund ferðamenn sæki landið heim í ár og þeir sem hingað koma virðast líka dvelja lengur og gera betur við sig en var að jafnaði árin fyrir faraldur. Staða fyrirtækja innan geirans virðist reyndar vera afar mismunandi. Margir bera sig nokkuð vel á meðan staðan hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum er vissulega enn afar erfið og oft búið að ganga verulega á alla varasjóði sem og eigið fé.“

Misreiknuðu sig illa

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir rekstrarumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja hafa verið mjög gott frá upphafi Covid, þrátt fyrir spár um annað. Þar ráði mestu að fólk ferðast ekki eins mikið og fyrir Covid, kaupmáttur hér á landi sé sterkur. Neysla sem áður fór fram erlendis, hafi að miklu leyti færst inn í íslenska hagkerfið og verslunin njóti mjög góðs af því. Undantekningin sé sú verslun sem hafi sérhæft sig í að þjóna ferðamennsku. Þar sé staðan erfið.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Andrés hefur áhyggjur af verðbólguþrýstingi. „Verðbólgan er að verulegu leyti innflutt. Seðlabanki Íslands hefur engin tól og tæki í sínu vopnabúri til að takast á við það. Þessi vandi er utan áhrifasvæðis Seðlabankans. Stýrivaxtahækkanir hér hafa engin áhrif á þetta.“

Grunnur þessa alþjóðlega vanda er, að sögn Andrésar, sá að markaðsaðilar, og ekki síst stór alþjóðleg skipafélög, hafi algerlega misreiknað sig. „Menn bjuggust við að eftirspurn myndi hrynja í faraldrinum. Stór skipafélög á borð við Maersk lögðu verulegum hluta skipaflota síns, eða jafnvel settu í brotajárn

.Þegar haft er í huga að meira en 30 prósent af allri framleiðslu heimsins fara fram í Kína, og Bandaríkin og Evrópa reiða sig á vörur frá Kína, segir það sig sjálft að þegar framboð á flutningsmöguleikum minnkar og hægist á vöruflutningum milli heimsálfa á sama tíma og eftirspurn hefur haldist, þá hefur verð rokið upp úr öllu valdi.“

Andrés segist ekki muna til þess að verðbólga í Bandaríkjunum hafi verið hærri en á Íslandi, eins og nú er. Verðbólgan í Þýskalandi sé lítið lægri en verðbólgan hér á Íslandi, eitthvað sem engan mann gat órað fyrir. Vandinn sé alþjóðlegur.

„Erlendir birgjar tilkynna yfirleitt verðbreytingar í upphafi árs og við höfum aldrei séð aðrar eins hækkanir og nú. Ég tel að mikill innfluttur verðbólguþrýstingur verði langt fram eftir næsta ári,“ segir Andrés.

Innflutt verðbólga

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, taka í sama streng og Andrés. „Næsta ár verður ekki auðvelt. Verðbólgan er komin í 5,1 prósent og ytri verðbólguþrýstingur er mikill. Við Ragnar Þór hjá VR fáum allar tilkynningar til dagvöruverslana um hækkanir frá birgjum, og það verður bara að segjast eins og er að þessar tölur eru svakalegar. Ég sé ekki betur en að verðbólguþrýstingurinn sé vanmetinn. Ég tel að hækkanir sem þegar er búið að tilkynna um séu alls ekki allar komnar fram. Út frá því sem við höfum séð tekur mikið af hækkunum gildi núna í janúar. Mestu hækkanirnar sem við höfum séð eru 50 prósent, sem er nú ekki lítið,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Ragnar Þór segir þennan þrýsting á verðlag munu þrengja mjög að fólki sem sé í erfiðri stöðu. Við þessu þurfi að bregðast. „Ég hef kallað eftir því að stjórnvöld afnemi eða lækki virðisaukaskatt á nauðsynjavörur tímabundið. Sömuleiðis olíugjaldið. Margt bendir til að þetta ástand verði tímabundið og muni að einhverju leyti ganga til baka. Stjórnvöld geta því gert margt til að minnka verðbólguþrýstinginn inn í kjarasamningaveturinn. Með því að gera ekki neitt munu stjórnvöld gera stöðuna margfalt erfiðari en hún þarf að vera.“

Vaxtahækkanir tilgangslausar

Vilhjálmur og Ragnar Þór taka undir með Andrési Magnússyni og segja vaxtahækkanir Seðlabankans tilgangslausar í baráttunni við innflutta verðbólgu. Vilhjálmur segist alfarið á móti því að hækka stýrivexti til að draga úr einkaneyslu. „Það er tilfærsla fjármuna frá heimilum og fyrirtækjum til fjármálakerfisins. Það eru til betri leiðir. Ég vil breyta lögum þannig að Seðlabankinn fái heimild til að auka séreignarsparnað tímabundið til að draga úr einkaneyslu. Þessi sparnaður færi inn á lokaðan einkareikning hjá launafólki. Þetta er miklu skynsamlegri leið en að fóðra fjármálakerfið látlaust.“

Jón Bjarki Bentsson segir verðhækkun innfluttra vara hafa verið hóflegri undanfarið en vænta mætti í ljósi frétta um hækkanir erlendis og ört hækkandi flutningskostnað. „Við gerum ráð fyrir nokkurri verðhækkun á innfluttum varningi að minnsta kosti út fyrsta fjórðung næsta árs, en að í kjölfarið stöðvist þessi þróun og gangi hugsanlega að hluta til baka. Væntanleg styrking krónu mun einnig hjálpa við að draga úr innfluttri verðbólgu.

Það er hins vegar alls ekki útilokað að við séum of bjartsýn á þessa þróun og þessi innflutti verðþrýstingur verði meiri og langvinnari en við höfum talið. Það myndi þá seinka þeirri hjöðnun verðbólgunnar sem við erum að spá á nýju ári.“

Löggjafinn á eftir

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir mótvægisaðgerðir stjórnvalda hafa hjálpað mörgum fyrirtækjum að finna viðspyrnu. „Við höfum lagt að stjórnvöldum að láta ekki flestar stuðningsaðgerðir vegna faraldursins renna út um áramót, heldur horfast í augu við að þróun faraldursins er áfram í óvissu og gera ráðstafanir til að geta brugðist við henni með sveigjanlegum hætti, í stað þess að löggjafinn sé alltaf nokkrum skrefum á eftir með stuðningsaðgerðir.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Ólafur segir marga vilja nota faraldurinn sem afsökun til að koma á viðskipta- og samkeppnishindrunum. „Við höfum meðal annars þurft að berjast gegn býsna breiðu bandalagi landbúnaðarins og stærstu atvinnulífssamtakanna, sem þrýstir mjög á stjórnvöld að fjölga undanþágum búvöruframleiðenda frá samkeppnislögum. Þrýstingur úr sömu átt á áframhaldandi eða auknar innflutningshömlur á búvörur er sömuleiðis mikill.“

Breyttur vinnumarkaður

Jón Bjarki Bentsson segir tvennt gera stöðuna á vinnumarkaði nú ólíka því sem áður hefur þekkst. Í fyrsta lagi sé það áhersla Lífskjarasamninganna á krónutöluhækkanir, sem enn fremur séu umtalsvert meiri fyrir fólk á taxtalaunum en hina sem semja beint við vinnuveitanda. Fyrirtæki með sérhæft og langmenntað starfsfólk hafi gjarnan notið góðs af tiltölulega hægri hlutfallshækkun launakostnaðar, á meðan fyrirtæki í mannaflsfrekri starfsemi sem krefst minni menntunar og sérhæfingar, hafi staðið frammi fyrir mjög hraðri hlutfallslegri hækkun launakostnaðar.

Í öðru lagi hafi faraldurinn og áhrif hans lagst með afar mismunandi hætti á fyrirtæki landsins. Innan verslunar hafi verið góðæri hjá sumum fyrirtækjum meðan önnur hafi fundið tilfinnanlega fyrir honum. Enn flóknari sé staðan í ferðaþjónustunni, þar sem mörg fyrirtæki hafi einungis haldist á floti vegna af sértækra aðgerða stjórnvalda og þess að ganga á varasjóði og eigið fé. Önnur hafi hins vegar átt talsvert betra ár og virðist vera þokkalega stödd.

Mikið mun að líkindum mæða á Aðalsteini Leifssyni, ríkissáttasemjara, þegar Lífskjarasamningarnir renna út á næsta ári.

Hann segir sjálfsagt fyrir stjórnvöld að vera opin fyrir aðkomu að kjarasamningum en varar við því að aðstæður á íbúðamarkaði geti breyst hratt og stórfelldar opinberar aðgerðir á því sviði gætu haft ófyrirséðar afleiðingar, verði staðan á markaði breytt þegar þær koma loks til framkvæmda. Þá sé í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar ákvæði um að styrkja hlutverk ríkissáttasemjara í því skyni að efla umgjörð kjarasamninga. Jón Bjarki telur mikilvægt að þeim breytingum verði komið á fyrir kjarasamningalotuna næsta haust.

Þríhliða samstarf

„Í stóra samhenginu skiptir mestu máli að hið opinbera, Seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðar séu þokkalega samtaka í að viðhalda þeim stöðugleika í hagkerfinu sem við náðum loksins jafnt og þétt á undanförnum áratug eða svo. Þar væri gagnlegt að horfa til frændþjóða okkar á hinum Norðurlöndunum þar sem virðist ganga betur en hér á landi að ná fram samspili lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu, batnandi lífskjara og almenns friðar á vinnumarkaði,“ segir Jón Bjarki.

Vilhjálmur Birgisson telur að næsta ár geti orðið mjög erfitt. Mikilvægt sé að horft sé út frá heildarhagsmunum. „Auðvitað er það eilífðarverkefni að horfa á þá sem standa höllustum fæti í íslensku samfélagi og að menn séu sammála um að bæta kjör þess fólks. Að fólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn á lægstu kjörum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Það er okkur til skammar að vera hér með launakjör sem ekki duga fyrir nauðþurftum. Við hljótum að geta verið sammála um það.

Svo þarf að skoða fjöldann. Að ráðstöfunartekjur fólks verði auknar með þrí- eða fjórhliða samkomulagi við stjórnvöld, Seðlabankann, verslun og þjónustu – að allir taki þátt en ekki bara sumir.“

Ragnar Þór Ingólfsson segir mikilvægt að grípa til tímabundinna aðgerða til að slá á áhrif hækkandi verðlags á vísitöluna og lífskjör fólks. Slíkt muni minnka þrýsting á atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna varðandi næstu kjarasamninga. Telur Ragnar stórt tækifæri felast i því fyrir ríkisstjórnina, sem geti bætt fyrir aðgerðaleysi og svikin loforð.

Nýtt form kjarasamninga?

„Kannski þurfum að teikna upp eitthvert algerlega nýtt form af kjarasamningum. Kannski þurfum við að sækja sérstaklega á þau fyrirtæki sem standa sterkt og hlífa hinum sem eru veik. Við þurfum að bæta kjör þeirra sem verst standa. Við þurfum að líta inn á við, finna lausnir. Þetta verður gríðarlega flókið og mikil áskorun.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Árið í ár hefur verið ákaflega erfitt. Vinnumarkaðurinn hefur gerbreyst á mjög skömmum tíma. Mér finnst stjórnvöld hafa brugðist. Ég er ekki að gera lítið úr aðstoð við fyrirtæki í faraldrinum, en fyrirtækin fengu bróðurpart af stuðningi stjórnvalda vegna Covid á meðan fólkið tók út um 30 milljarða af sínum séreignarsparnaði til að standa undir sinni kreppu sjálft. Ríkið fékk í raun meiri tekjur en hægt er að eyrnamerkja í þráðbeinum úrræðum. Í þessu sambandi er ekki hægt að telja með atvinnubótasjóðinn, sem er réttindi sem við unnum okkur inn 1956.“

Ragnari finnst viðhorf gagnvart þröngri stöðu ákveðinna hópa í okkar samfélagi vera algerlega óviðunandi. „Mér finnst skorta mjög á skilning á stöðunni. Ég hef miklar áhyggjur af því að ríkisstjórnin verði jafn framtakslaus gagnvart þeim verst stöddu, öldruðum og öryrkjum, á komandi ári og hún var á því sem er að ljúka.“

„Ég held að við stöndum nú á hnífsblaði,“ segir Vilhjálmur Birgisson, „og spurningin er hvort við föllum á blaðið eða berum gæfu til að skipta gæðum samfélagsins með sanngjörnum hætti, látum af því dekri við fjármálakerfið sem hefur verið stundað, og bætum ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja með öðrum aðferðum en beinum launabreytingum. Við getum breytt skattkerfinu, lækkað skatta á almenning. Ein tegund dulinnar skattahækkunar felst í því að láta ekki skattfrelsismörk og persónufrádrátt fylgja launaþróun í landinu. Þegar skattleysismörk fylgja ekki verðlagsþróun.“

Vaxtarbroddurinn liggur í grænni orku

Þrátt fyrir áhyggjur af kjaramálum á komandi ári sér Vilhjálmur Birgisson mikil sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga:

„Við erum gríðarlega ríkt land. Ekki aðeins eigum við okkar dýrmætu sjávarauðlind sem hefur gert það að verkum að við búum við þau lífsgæði sem við njótum í dag, þótt óneitanlega þurfi að taka til hendinni vegna þess að auðurinn hefur færst á allt of fáar hendur. Við þurfum að fá meiri auðlindarentu inn í samfélagið, ég held að allir séu sammála um það.

Svo eigum við þetta stórkostlega land. Ferðaþjónustan fór í fyrsta sæti yfir gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar og þetta höfum við enn upp á að bjóða þó að Covid hafi óneitanlega sett strik í reikninginn, en við vonum að það verði ekki til eilífðarnóns.

Stærstu sóknarfæri okkar Íslendinga felast í nýtingu grænnar orku, að mati Vilhjálms Birgissonar.

Stærsti vaxtarbroddurinn sem fram undan er liggur hins vegar í orkunni okkar. Hreina, græna orkan okkar er einstök. Allar þjóðir í heiminum leita núna logandi ljósi að grænni og vistvænni orku. Ég held að hér sé að verða löngu tímabær vitundarvakning um að við eigum að nýta grænu orkuna okkar til atvinnusköpunar. Við eigum að nýta hana til að taka þátt í því alheimsverkefni sem felst í orkuskiptunum. Til þess þurfum við að styrkja flutningskerfið okkar og við þurfum að virkja meira.

Við sláum að minnsta kosti tvær flugur í einu höggi. Önnur er sú að við fáum auknar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Við náum að skapa hér fleiri störf. Við stígum líka risaskref til þess að verða fyrsta þjóðin sem verður óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040, eins og markmiðið er. Til þess þurfum við að virkja. Ég hef sannfæringu fyrir því að þegar allar staðreyndir málsins eru komnar upp á borð sé meirihlutavilji þjóðarinnar afdráttarlaus: Að nýta beri þessa grænu orku sem allar þjóðir heims öfunda okkur af.“