Bláa lónið, sem opnar starfsstöðvar sínar 19. júní eftir tæplega þriggja mánaða lokun, mun reyna að höfða til heimamarkaðarins í því skyni að fá sem flesta Íslendinga til að heimsækja lónið í sumar. Jafnvel þótt björtustu spár um ferðamannafjölda ársins rætist verður fyrirtækið fyrir miklu fjárhagslegu höggi að sögn forstjórans.

„Mitt markaðsfólk er að vinna að ýmsum hugmyndum í þeim efnum og ég er viss um að það kemur eitthvað spennandi út úr því,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, spurður hvort fyrirtækið muni veita afslætti til að fá fleiri Íslendinga í lónið í sumar.

Stjórnendur Bláa lónsins munu segja upp 403 starfsmönnum frá og með næsta mánaðamótum til þess að bregðast við miklum samdrætti og óvissu í ferðaþjónustu. Grímur segir að eftir uppsagnirnar verði á annað hundrað starfsmenn hjá fyrirtækinu. Laun þeirra starfsmanna sem ekki fá uppsögn verða skert, mest hjá forstjóra og stjórn um 30 prósent, 25 prósent hjá framkvæmdastjórn og minna hjá öðrum.

Í tilkynningu Bláa lónsins um uppsagnirnar kom fram að vonir stæðu til þess að starfsfólkið yrði ráðið að nýju þegar aðstæður breyttust til hins betra. Spár greiningardeilda gera hins vegar ekki ráð fyrir að fjöldi ferðamanna nái fyrri hæðum í bráð.

„Jafnvel þó að bjartsýnustu vonir gangi eftir hvað varða það sem eftir lifir árs þá verður niðurstaða þessa rekstrarárs mikið högg.“

„Það segir sig sjálft að ef við erum ekki að fá sama fjölda ferðamanna til landsins og áður verður starfsemin minni í sniðum hvað varðar starfsmannafjölda. En við erum að vinna að innviðauppbyggingu og ýmsu öðrum verkefnum sem miða að því að reksturinn geti verði hagkvæmari. Auk þess höfum við alltaf verið talsmenn þess að horfa á tekjurnar sem hver gestur skilur eftir frekar en fjöldann. Þannig að það eru tvær hliðar á þessu máli,“ segir Grímur.

„Óvissan er gríðarleg. Það sem við erum að gera með þessum þungbæru aðgerðum er að búa okkur undir það versta en vona það besta.“

Bláa lónið hefur verið nær tekjulaust í tæpa þrjá mánuði Aðspurður segist Grímur ekki geta gefið upp hvert uppsafnað tap fyrirtækisins er á tímabilinu.

„Fyrirtækið er tekjulaust í þessa þrjá mánuði og það þarf ekki mikla reiknimeistara til að átta sig á því að höggið er verulegt. Jafnvel þó að bjartsýnustu vonir gangi eftir hvað varða það sem eftir lifir árs þá verður niðurstaða þessa rekstrarárs mikið högg,“ segir Grímur.