Gulleggið, stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands, fer af stað helgina 15. - 16. janúar. Það styttist í að umsóknarfresturinn í Gulleggið 2022 renni út en skráning er opin öllum sem eru með hugmynd eða án hugmyndar til miðnættis 13. janúar.

Icelandic Startups hefur umsjón með Gullegginu og hvetur alla til að taka fyrsta skrefið með því að skrá sig í Gulleggið en frítt er að taka þátt og til mikils að vinna.

Gulleggið er ekki bara frábært tækifæri til að fullkomna eigin kynningu á hugmynd heldur líka einstakur vettvangur til að koma hugmynd sinni á framfæri. Masterclass Gulleggsins er ómetanlegur vettvangur til að kynnast öðrum í sömu hugleiðingum sem oft leiðir til ævilangrar vináttu og styrkir góð viðskiptatengsl til framtíðar.

Að lokinni skráningu hefst vinna allra teymanna að því að gera pitch deck en það er að setja hugmynd fram í einfaldri kynningu sem tekur á öllum megin þáttum. Kennslan verður í höndum Icelandic Startups en til liðs við Gulleggið kemur fjöldi reyndra frumkvöðla og sérfræðinga úr atvinnulífinu.

Til þess að eiga möguleika á því að komast í topp 10 og keppa á stóra sviðinu í Grósku þann 4. febrúar verða teymin að hafa skila inn kynningu á hugmynd sinni fyrir miðnætti 21. janúar.

Hápunktur Gulleggsins 2022 fer fram í hátíðarsal Grósku 4. febrúar og er viðburðurinn opinn öllum á meðan húsrúm leyfir. Það er til mikils að vinna því Gulleggið hefur verið stökkpallur fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki. Má þar sem dæmi nefna Controlant, Meniga, Pay Analytics, Genki og fjölmörg önnur.