Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða og stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar, segir að stjórnvöld hafi enn ekki brugðist við ákalli ferðaþjónustunnar um sérstakar aðgerðir til að renna stoðum undir greinina eftir fall WOW air.

Þetta er haft eftir Birni í umfjöllun Markaðarins um stöðu ferðaþjónustunnar en þar greindi hann meðal annars frá því að samdráttur Kynnisferða í apríl hefði numið 34 prósentum á milli ára.

„Ég held að þetta verði skammtímahögg fyrir ferðaþjónustuna og það verður sársaukafullt á meðan á því stendur. Fyrirtæki munu þurfa að fækka fólki og sum munu lenda í rekstrarerfiðleikum. Það munar um eitt stórt flugfélag,“ segir Björn og bætir við að Samtök ferðaþjónustunnar hafi átt fundi með ráðamönnum til að óska eftir aukinni þátttöku hins opinbera í markaðsstarfi íslenskrar ferðaþjónustu og sérstökum aðgerðum til að bæta fyrir brottfall WOW air.

„Núna, rúmlega sex vikum eftir fall WOW hafa stjórnvöld enn ekki brugðist við þrátt fyrir að fyrirséð er að gjaldeyristekjur muni dragast saman um hátt í 100 milljarða króna á þessu ári,“ segir Björn.