Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir segir að tæknifjárfestar, þar á meðal hann sjálfur, fylgist grannt með því hvernig bregðast eigi við hlýnun jarðar og draga úr sorpi svo fyrirtæki geti verið rekin með sjálfbærari hætti. Þetta kemur fram í pistli eftir hann á Medium.

Hann leiti að fjárfestingartækifærum sem hafi jákvæð áhrif á hlýnun jarðar sem ráðgjafi sjóðsins Climate Technology Fund sem sé í rekstri Princeville Capital og fjárfesti í fyrirtækjum tengdum sjálfbærni með kollegum sínum hjá fjárfestingafélaginu Novator.

Björgólfur Thor tók þátt í að móta nýjung í hlutafélagaforminu sem hann kallar á ensku „Cause Corporation“ en það eru fyrirtæki sem vinna að framgangi tiltekins málstaðar.

Hann hafi komið að stofnun útvistarmerkisins The Lost Explorer og í sumar hafi það verið fyrsta fyrirtækið sem komið var á fót í Bandaríkjunum sem byggði á umræddri hugmyndafræði.

Að sögn Björgólfs eru fyrirtæki sem vinni að framgangi tiltekins málstaðar rekin í hagnaðarskyni, kostnaður sé frádráttarbær frá skatti en hagnaði sé endurfjárfest til að vinna áfram að markmiðum félagsins. Auk þess var komið á fót Cause Corporation Foundation sem eigi að vinna að framgangi hugmyndafræðinnar.