Björgólfur Jóhannsson hefur látið af störfum sem annar forstjóra Samherja hf. Björgólfur var einn forstjóri útgerðarfyrirtækisins frá nóvember 2019 þegar Þorsteinn Már Baldvinsson steig til hliðar eftir að greint var frá meintum mútubrotum fyrirtækisins í Namibíu.

Þorsteinn Már sneri aftur í mars í fyrra, þá samhliða Björgólfi, nú verður Þorsteinn Már á ný eini forstjóri félagsins.

Björgólfur hefur ekki yfirgefið Samherja að fullu, í tilkynningu frá Samherja segir að hann hafi verið kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja. Mun hann stjórna skráningu og formlegri innleiðingu slíkra reglna ásamt öðrum ráðgjafastörfum fyrir Samherja eftir því sem tilefni verður til.

„Það blandast engum hugur um það hversu mikilvægt það var fyrir Samherja að fá Björgólf til liðs við okkur. Það veitti svo sannarlega ekki af manni með hans afl og eiginleika. Ég er honum þakklátur fyrir einstakt samstarf og mikla vináttu sem hann hefur sýnt okkur,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.