Íslenski athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson er meðal hundruð ríkustu manna Bretlands samkvæmt samantekt the Sunday Times. Bakkavarabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru meðal þeirra þúsund ríkustu.

Björgólfur Thor er landsmönnum sjálfsagt kunnur, en hann var áberandi í íslensku viðskiptalífi á árunum fyrir hrun. Á undanförnum árum hefur hann þó aðallega komist í fjölmiðla fyrir vináttu sína við knattspyrnuhetjuna David Beckham og leikstjórann Guy Ritchie. Endrum og eins berast einnig fréttir af dómsmálum sem höfðuð hafa verið gegn Björgólfi vegna efnahagshrunsins, en hann var á sínum tíma aðaleigandi Landsbankans.

Björgólfur er samkvæmt the Sunday Times metinn á 1,7 milljarð punda, eða um 270 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar má nefna að heildartekjur íslenska ríkisins árið 2018 voru um 840 milljarðar króna, og nema auðæfi Björgólfs því um þriðjungi af heildartekjum ríkisins. Er jafnframt talið að eignir Björgólfs hafi aukist um 98 milljónir punda eða um sextán milljarða króna á síðastliðnu ári.

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oft kenndir við Bakkavör, eru metnir á um 560 milljónir punda eða tæplega 90 milljarða króna.