Í tilefni af Alþjóðlegri fjárfestaviku, World Investor Week (WIW) 4. - 10. október, verður bjöllum Nasdaq kauphallanna á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum hringt til að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir fjárfesta. Opnunarbjöllu Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi var hringt af þessu tilefni í morgun, en að viðburðinum stóðu Nasdaq Iceland, Samtök Fjármálafyrirtækja og Fortuna Invest. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

„Á nokkuð skömmum tíma hefur bein þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði aukist töluvert. Í kjölfar útboðs Icelandair Group á síðasta ári og með skráningum fjögurra nýrra fyrirtækja á Aðalmarkaðinn og á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn í ár, lætur nærri að aukning í þátttöku hafi farið frá um rúmlega 8000 einstaklingum sem áttu hlutabréf í einu eða fleiri fyrirtækjum upp í rúmlega 30 þúsund,“ segir í tilkynningunni.

Í tilefni af Alþjóðlegu fjárfestavikunni munu Nasdaq Iceland, Viðskiptaráð Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Háskólinn í Reykjavík standa fyrir opna fræðsluviðburðinum „Næstum allt sem þú vilt vita um fjárfestingar“ sem haldinn verður í Háskólanum í Reykjavík, fimmtudaginn 7. október kl. 16 (sjá meira viðburð). Á fundinum munu Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, Rósa Kristinsdóttir, meðstofnandi Fortuna Invest, Már Wolfgang Mixa, lektor við Háskólann í Reykjavík og Arnaldur Þór Guðmundsson, formaður Ungra fjárfesta taka til máls.

Alþjóðleg vika fjárfesta (WIW) sem Alþjóðasamtök kauphalla (World Federation of Exchanges) standa að ásamt Alþjóðasamtökum eftirlitsaðila með verðbréfaviðskiptum (International Organization of Securities Commission (IOSCO) er núna haldin í fimmta sinn á heimsvísu, en kauphallir um allan heim taka þátt í honum með bjölluhringingu og fræðsluviðburðum af ýmsum toga.