Björn Ingi Hrafnsson segist ekki vera hluti af félaginu Bos ehf. sem eignaðist Argentínu steikhús í fyrra og sá um rekstur þess. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að veitingastaðnum hefði verið lokað, starfsfólki verið sagt upp og að margir hverjir ættu inni ógreidd laun. Hann segist í samtali við Fréttablaðið ekki vilja gefa upp hverjir nýir eigendur staðarins eru en að þeir muni gera grein fyrir stöðu mála þegar fram líða stundir.

„Ég er ekki með þetta félag lengur. Það standa þarna yfir viðgerðir og er ekki vitað hvenær þeim lýkur,“ segir Björn Ingi.

„Þetta er mjög leiðinleg staða en það er staðreynt að veitingahúsið hefur átt í rekstrarerfiðleikum um mjög langt skeið. Við höfum hvatt starfsfólk til þess að vera í sambandi við sitt stéttarfélag svo réttindi þeirra séu tryggð. Það er svo nýrra eigenda að tilkynna um opnun Argentínu á nýjan leik, eftir að viðgerð lýkur.“

Starfsfólk leitar réttar síns

Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjaramála hjá stéttarfélaginu Eflingu staðfesti í samtali við Fréttablaðið að 20 starfsmenn veitingahússins hefðu leitað réttar sín nýlega. Þeirra á meðal eru Arsen Aleksandersson, fyrrverandi yfirkokkur á Argentínu, og eiginkona hans, Karina. Arsen sagði ástandið hafa verið slæmt á staðnum um nokkra hríð.

„Þeir hugsa ekki um staðinn af ást eða halda uppi stöðlum,“ sagði Arsen og segir veitingahúsið skulda Karinu mánaðaruppsagnarfrest og orlof. 

Björn Ingi telur eðlilegt að starfsfólk leiti réttar síns.

„Við hvöttum fólk til að tala við sitt stéttarfélag þegar að þurfti að loka staðnum. Það er rekstrarstöðvun og staðurinn er og hefur verið tekjulaus í langan tíma. Það gefur auga leið að það hafi áhrif á stöðu félagsins. Við borguðum það sem við gátum. Við sögðum fólki frá því að það væri rekstrarstöðvun þannig að við vissum ekki hver staðan yrði,“ segir Björn Ingi.

Staða félagsins verið veik um langt skeið

En ætlið þið klára að borga starfsfólki launin?

„Ég er ekki með þetta félag lengur þannig að ég get ekki svarað því. En ég held að það séu fáir veitingastaðir sem geta þolað slíka rekstrarstöðvun. Staða félagsins var ekki sterk fyrir og rekstrarstöðvun upp á margar vikur gerir engu fyrirtæki gott. Það blasir við.“

Bos ehf. heldur utan um rekstur Argentínu sem fyrr segir en félagið var stofnað af KPMG undir nafninu AB596 ehf. Því var breytt í Bos á sínum tíma af Sigurði G. Guðjónssyni. Hann er skráður stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins en hefur neitað að hafa aðkomu að því í dag.