Björgólfur Thor Björgólfsson tók þátt í 25 milljón dollara fjármögnun fjárfestingafélagsins Atai Life Sciences, sem fjárfestir í heilbrigðis- og líftæknifyrirtækjum. Þetta herma heimildir Bloomberg.

Atai Life Sciences á umtalsverðan hlut í nýsköpunarfyrirtækinu Compass Pathways, sem er að rannsaka hvort nýta megi efni sem veldur ofskynjunum í sveppum til að meðhöndla þunglyndi. Það er jafnframt stærsti hluthafi Innoplexus AG sem hefur þróað gervigreind til að finna meðferðir við sjúkdómum.

Fjárfestingafélagið á í viðræðum við banka um mögulega skráningu á hlutabréfamarkað í Kanada á næsta ári og er horft til þess að fyrirtækið sé metið á 800 milljónir dollara, segir í fréttinni.