„Ég velti auðvitað fyrir mér hlutverki eftirlitsaðila eins og Samgöngustofu,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair í útvarpsþættinum Bítið í morgun þar sem hann ræddi stöðu WOW air og flugmarkaðarins.

„Samgöngustofa hefur það hlutverk að fylgjast með. Í fyrsta lagi gefur hún út flugrekstrarleyfi og við þá útgáfu þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Síðan er það hlutverk Samgöngu stofu að fylgjast með hvort þau skilyrði séu uppfyllt, að félagið sé rekstrarhæft. Mér sýnist nokkuð langt síðan þetta félag var það ekki,“ sagði Björgólfur.

Hann sagði að Samgöngustofa hefði átt að grípa inn í og svipta félagið flugrekstrarleyfi og nefndi að flugmálayfirvöld í Bretlandi hefðu stöðvað rekstur flugfélagsins Monarch þegar ekki var útlit fyrir að félagið gæti staðið undir skuldbindingum sínum. 

„Mér finnst þetta vera spurningum vinnubrögð hjá Samgöngustofu, hvort að við höfum brugðist þarna.“

Tækifæri með eða án WOW air

Björgólfur varaði við því að máluð væri of svört mynd af afleiðingunum sem fylgdu mögulegu gjaldþroti WOW air.

„Áhrifin verða mikil en í mínum huga er margt af þessu komið fram nú þegar. Við megum ekki mála það svarta mynd fyrir fólkið í landinu að það sé allt ómögulegt. Við höfum alltaf tækifæri til að vinna okkur upp og gera betur.“

Þá velti hann fyrir sér hvort markaðurinn sem WOW air hefði sinnt væri sjálfbær. 

„Í mínum huga á ferðaþjónstan bullandi tækifæri með eða án WOW. Það er alltaf þannig að ef það er sjálfbær markaður þá fyllist hann upp. Hann verður að vera sjálfbær. Það þýðir ekki að vera með sölu á flugi sem er langt undir kostnaðarverði og ætla að kalla sig low-cost en vera það ekki,“ sagði Björgólfur.