Þrotabú Mainsee Holding hefur höfðað mál á hendur Glitni Holdco. Björgólfur Thor Björgólfsson, einn kröfuhafa þrotabúsins, tryggði framgang málsins en það varðar kröfu á hendur félagi Róberts Wessmans. 

Þetta kemur fram í stefnu sem Fréttablaðið hefur undir höndunum. Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri Mainsee Holding, krefst þess að rift verði greiðslu félagsins á skuld við Glitni holdco sem nam rúmlega milljarði króna, og að Glitni verði gert að greiða Mainsee sömu fjárhæð.

Eignarhaldsfélagið Mainsee Holding var stofnað sumarið 2007 af Novator Pharma II, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, og Salt Pharma sem var að stærstum hluta í eigu Róberts Wessmans í gegnum Salt Investments. Mainsee Holding var eigandi alls hlutafjár í þýska félaginu Mainsee Pharma GmbH.

Mainsee Pharma GmbH keypti rekstur Delta-Select GmbH fyrir samheitalyf haustið 2007 fyrir 50 milljónir evra og voru kaupin fjármögnuð af Glitni banka. Glitnir veitti Mainsee brúarlán að upphæð rúmlega 56 milljónir evra og samhliða því gengust Björgólfur Thor Björgólfsson og Róbert Wessman í persónulega ábyrgð fyrir efndum lánsins. 

Glitnir banki tók yfir Mainsee Holding í nóvember 2009  og var félagið síðar selt dótturfélagi bankans, GL Investments ehf. Rúmu ári síðar seldi bankinn þýsku dótturfélagi Actavis Group lyfsölurekstur og ýmsar eigur Mainsee Pharma GmbH en umsamið kaupverð var 30 milljónir evra. Í sölusamningi var tekið fram að undanskilin væri við sölu eigna Mainsee Pharma GmbH krafa félagsins á hendur Salt Investments. 

Samkvæmt stefnunni má rekja kröfuna til millifærslu fjármuna í eigu Mainsee Pharma GmbH á fjárvörslu Actavis Group að fjárhæð 4.450.000 evra sem framkvæmd í desember 2007 yfir á reikning Salt Investment. Þá segir að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu tíu árum síðan að millifærslan hafi verið ólögmæt. Í framhaldinu hafi verið gerður sérstakur samningur milli Mainsee Pharma GmbH annars vegar sem lánveitanda og Salt Investments sem lántaka hins vegar í maí 2010.

Sumarið 2011 var gerð samrunaáætlun fyrir Mainsee Pharma GmbH og Mainsee Holding. Segir í stefnunni að Glitnir hafi keypt kröfuna á hendur Salt Investments á tæpar 6,7  milljónir evra en um þau viðskipti snýst stefnan. Hafi þessi fjárhæð komið til lækkunar á kröfu Glitnis á hendur Mainsee GmbH.

Björgólfur ábyrgist greiðslu málskostnaðar

Lýstar kröfur í þrotabú Mainsee Holding námu meira en 13,8 milljörðum króna. Tveir kröfuhafar lýstu kröfum í búið; Glitni Holdco lýsti kröfum að fjárhæð 9,1 milljarður og Björgólfur Thor lýsti kröfum að fjárhæð 4,7 milljarðar.

Á skiptafundi lýsti lögmaður Björgólfs Thors því yfir að hann væri sammála afstöðu skiptastjóra um að höfða riftunarmál vegna kaupa Glitnis á kröfu Mainsee Holding á hendur Salt Investments, að því er kemur fram í stefnunni. 

Á fundinum upplýsti skiptastjóri að ekki væru til fjármunir í búinu til að höfða riftunarmál á hendur Glitni. Lögmaður Björgólfs Thors staðfesti fyrir hönd hans að hann ábyrgist greiðslu alls kostnaðar skiptastjóra vegna riftunarmálsins.