Íslensk fyrirtæki geta nú gripið til þess að fá umsækjendur um störf í stafræn viðtöl án kostnaðar. Þannig er hægt að framkvæma vídeóviðtöl án þess að auka smithættu vegna COVID-19 og umsækjendum í sóttkví er kleift að keppa við aðra um störf á jafningjagrundvelli.

Vídeóviðtöl Alfreðs, stærsta atvinnuleitarmiðils landsins, kostuðu áður 11.900 krónur en nú býðst öllum fyrirtækjum sem auglýsa hjá Alfreð að nota þau án kostnaðar, segir í tilkynningu.

„Í ljósi aðstæðna í dag erum við að sjá miklar breytingar bæði í atvinnulífi og starfsumhverfi okkar. Með þessum breytingum breytist ráðningarferli hjá fyrirtækjum og eru mannauðsstjórar í auknum mæli að leita leiða til að einfalda sjálft ferlið fyrir starfsviðtölin,“ segir Sigríður Erlendsdóttir, markaðs- og sölustjóri hjá Alfreð.

Fyrirtæki senda spurningar á umsækjendur sem taka upp svör sín innan þess tímaramma sem þeim er settur. Álitlegustu umsækjendunum er svo hægt að bjóða í starfsviðtal.

„Við vitum að ferilskráin segir ekki alltaf allt og því getur verið gott að nota vídeóviðtölin til að kynnast fólki örlítið áður en því er boðið í starfsviðtal. Með þessu er einnig hægt að gefa stærri hóp færi á að kynna sig, meta fleiri umsækjendur og vanda þannig valið fyrir starfsviðtölin,“ segir Sigríður.

Fyrirtæki sem auglýsa hjá Alfreð hafa val um hvernig þeir taka á móti starfsumsóknum, hvort sem það er með ráðningarkerfi Alfreðs eða í gegnum tölvupóst eða vefsíðu. Þau sem nota ráðningarkerfið fá yfirsýn yfir umsóknir og geta verið í beinum samskiptum við umsækjendur, boðið þeim í viðtöl og sent þakkarbréf með einum smelli.