Þóroddur Sigfússon, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar hjá TM, segir að með því að bjóða upp á netöryggistryggingar sé verið að mæta eftirspurn markaðarins. „Við höfum fundið fyrir auknum áhuga á þessum tryggingum, þá einkum þegar berast fréttir af netárásum hérlendis. Með því að bjóða upp á þessar tryggingar erum við í raun að svara kalli markaðarins,“ segir hann og bætir við að tryggingin sem TM hyggst bjóða upp á sé ætluð minni og meðalstórum fyrirtækjum.

„Stærri fyrirtæki hafa haft aðgang að svona tryggingum í gegnum erlenda tryggingamarkaði. Við höfum því ákveðið að bjóða upp á þessar tryggingar fyrir þau fyrirtæki sem hefur ekki staðið slíkt til boða. Staðan er líka þannig að það eru ekki aðeins stór fyrirtæki sem lenda í netárásum heldur eru þær sífellt að verða algengari hjá öðrum fyrirtækjum.“

Hann segir að tryggingin sem um ræðir hafi lengi verið til staðar erlendis en TM sé fyrst tryggingafélaganna hér á landi til að setja saman tryggingu af þessum toga. „Tryggingin er með fimm bótasvið og bætir meðal annars kostnað við að endurreisa tölvukerfi og tölvugögn í kjölfar netárásar. Hún bætir jafnframt þá rekstrarstöðvun sem verður í kjölfar netárásar og tekur jafnframt til kostnaðar ef gögn leka. Auk þess bætir hún kostnað sem kann að hljótast í kjölfar auðkennisþjófnaðar.

Það sem er sérstakt og jákvætt við trygginguna okkar er að hún er að miklu leyti hugsuð sem þjónustutrygging. Með því einu að kaupa tryggingu hjá okkur þá fær fyrirtækið aðgang að helstu sérfræðingum landsins á sviði netöryggis. Það getur verið mjög lærdómsríkt fyrir fyrirtækin að fara í gegnum þetta ferli hjá okkur og mikil forvarnarvinna sem á sér stað.“

Hann bætir við að tryggingin sé einföld að sniði. „Ferlið sjálft er afar einfalt, fyrirtækin geta sett sig í samband við okkur og við setjum fram tilboð með einföldum hætti og í kjölfarið hafa Origo, sem eru þjónustuaðilar okkar, samband varðandi áhættumat. Við teljum líka að verðlagningin sé hófleg. Ef við berum verðskrána okkar saman við það sem gengur og gerist annars staðar í löndunum í kringum okkur þá er hún mjög samkeppnishæf.“