Norska rafvöruverslanakeðjan Elkjøp berst í bökkum fjárhagslega og hefur þurft að grípa til viðamikilla aðgerða til þess að skera niður kostnað. Í frétt norska miðilsins VG segir að keðjan hafi ákveðið að bjóða þeim starfsmönnum sem þiggja starfslokasamning bónusgreiðslu.
Greiðslan nemur 3000 norskum krónum eða því sem nemur rúmum 40 þúsund íslenskum krónum. Segir í frétt VG að keðjan þurfi að minnka starfsmannakostnað um sem nemur 12 prósentum og því hafi verið gripið til þessa ráðs.
Fréttir af fjárhagserfiðleikum keðjunnar voru fyrst sagðar í janúar síðastliðnum. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá keðjunni að lækka rekstrarkostnað og eru umræddar bónusgreiðslur sagðar öþrifaráð.
Skrifi starfsmenn undir starfslokasamning afsala þeir sér jafnframt rétti til þess að beita sér gegn fyrirtækinu með öðrum hætti, meðal annars að lögsækja fyrirtækið.
VG ræðir við Ole André Oftebro um málið, sem er lögfræðingur í vinnurétti. Hann segir upphæðina gríðarlega lága og að það sé lögmæt spurning hvort greiðslurnar standist lög.
„Spurningin er hvort 3000 krónur séu nógu háar bætur fyrir atvinnumissi. Ef mistök hafa verið gerð við niðurskurðinn þá er hægt að setja spurningamerki við það hvort starfslokasamningur upp á svo lágar upphæðir geti staðist eða hvort hann sé í raun ólöglegur,“ segir Ole.