Norska raf­vöru­verslana­keðjan Elkjøp berst í bökkum fjár­hags­lega og hefur þurft að grípa til viða­mikilla að­gerða til þess að skera niður kostnað. Í frétt norska miðilsins VG segir að keðjan hafi á­kveðið að bjóða þeim starfs­mönnum sem þiggja starfs­loka­samning bónus­greiðslu.

Greiðslan nemur 3000 norskum krónum eða því sem nemur rúmum 40 þúsund ís­lenskum krónum. Segir í frétt VG að keðjan þurfi að minnka starfs­manna­kostnað um sem nemur 12 prósentum og því hafi verið gripið til þessa ráðs.

Fréttir af fjár­hags­erfið­leikum keðjunnar voru fyrst sagðar í janúar síðast­liðnum. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá keðjunni að lækka rekstrar­kostnað og eru um­ræddar bónus­greiðslur sagðar öþrifa­ráð.

Skrifi starfs­menn undir starfs­loka­samning af­sala þeir sér jafn­framt rétti til þess að beita sér gegn fyrir­tækinu með öðrum hætti, meðal annars að lög­sækja fyrir­tækið.

VG ræðir við Ole André Oftebro um málið, sem er lög­fræðingur í vinnu­rétti. Hann segir upp­hæðina gríðar­lega lága og að það sé lög­mæt spurning hvort greiðslurnar standist lög.

„Spurningin er hvort 3000 krónur séu nógu háar bætur fyrir at­vinnu­missi. Ef mis­tök hafa verið gerð við niður­skurðinn þá er hægt að setja spurninga­merki við það hvort starfs­loka­samningur upp á svo lágar upp­hæðir geti staðist eða hvort hann sé í raun ó­lög­legur,“ segir Ole.