Opin Kerfi hafa gert samkomulag við hugbúnaðarfyrirtækið Taktikal um nýtingu og endursölu á lausnum fyrir rafrænar undirskriftir samninga og annarra forma. Opin Kerfi munu þannig nýta rafrænar undirskriftir fyrir alla starfsemi fyrirtækisins og bjóða viðskiptavinum sömu lausnir.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá fyrirtækjunum en undirritun samninga, sem fram til þessa hefur að mestu farið fram með undirskrift á pappír, getur nú farið fram með rafrænum hætti og auðveldar þannig bæði fyrirtækjum og einstaklingum að gera samninga sín á milli. Við þær aðstæður sem nú ríkja í kjölfar útbreiðslu Covid-19 veirunnar hefur þörfin fyrir rafræna undirritun samninga aukist verulega.

Reynir Stefánsson, framkvæmdastjóri vöru- og hugbúnaðarsviðs Opinna Kerfa, segir stjórnendur leita nú allra leiða til að tryggja samfellu í sínum rekstri og rafræn undirritun samninga er stór áskorun um þessar mundir.

„Það er mjög ánægjulegt að geta svarað þeirri þörf eins hratt og raun ber vitni. Lausn Taktikal stenst að okkar mati ítrustu kröfur sem snúa að öryggi, notendaupplifun og möguleikum á samþættingu með sjálfvirkni í huga. Rafrænar undirritanir gera viðskiptavinum okkar kleift að rafvæða og straumlínulaga rekstur sinn.“

Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal segist spenntur fyrir samstarfinu við Opin Kerfi sem sinna stórum hópi kröfuharðra viðskiptavina.

„Þannig fáum við tækifæri til að kynna fleiri fyrirtækjum sveigjanlegar og öruggar lausnir fyrir rafrænar undirskriftir. Með samstarfinu fjölgum við möguleikum fyrirtækja á að selja vörur sínar og þjónustu með rafrænum undirskriftum, tengja skjalagerð sína sjálfvirkum ferlum og gera samninga óháð hefðbundnum opnunartíma. Til viðbótar því að spara bæði einstaklingum og fyrirtækjum tíma eru lausnirnar jafnframt umhverfisvænar þar sem þær draga úr pappírsnotkun og minnka þörfina á samgöngum.“