Íslenskum neytendum bjóðast nú víða tilkomumikil tilboð og afslættir af ýmis konar vöru og þjónustu í tilefni af svörtum föstudegi.

Verslanir Lindex eru þar ekki undanskildar en athygli hefur vakið að ólíkt mörgum öðrum verslunum kaus Lindex að bjóða einungis upp á allt að 50% afslátt inn í verslunum sínum en ekki í netverslun fyrirtækisins.

Sóttvarnayfirvöld hafa undanfarna daga varpað fram áhyggjum sínum af mögulegri hópamyndun fyrir utan verslanir í aðventunni og í kringum stóra afsláttardaga.

Engin nettilboð fyrr en eftir helgi

Albert Magnússon, umboðsmaður Lindex á Íslandi, segir stjórnendur hafi reynt að fara bil beggja þetta árið.

„Við erum ekki að gera það sem við gerðum í fyrra þar sem við vorum með tilboð alla helgina, við einangruðum þau við þennan dag. Við munum kynna það sem við gerum fyrir netverja þegar sá dagur kemur upp.“

Vísar Albert þar til netmánudags eða Cyber Monday eins og hann verið nefndur á frummálinu.

„Það er öllum aðgerðum hjá okkur í þessa vegu stillt mikið í hóf og með allt öðru lagi en hefur verið með tilliti til þess að vera ekki að hvetja sérstaklega til einhverra biðraðamyndunar eða einhvers slíks.“

En hefði það ekki þjónað betur því markmiði að bjóða einnig upp á netverslun á þessum stóra degi?

„Þetta er annars vegar Black Friday og í kjölfarið munum við að sjálfsögðu gera vel við netverja en það er á Cyber Monday, þannig virkar þetta. Ákvörðunin var sú að vera með mjög lágstemmt plan á Black Friday,“ segir Albert og bætir við að tilboð dagsins hafi nánast ekkert verið auglýst.

Fólk verði haga seglum eftir vindi

Aðspurður um málið segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, að það sé alls ekki æskilegt að hvetja núna beinlínis fólk til þess að koma saman.

„Maður hefur alveg skilning á því að fólk vilji halda versluninni gangandi, fá til sín viðskiptavini og vilji bjóða þeim góð kjör og það allt saman en við verðum svolítið að setja það í þetta samhengi sem við erum í núna og þann veruleika.“

„Við vitum svo sem að grímunotkun er býsna víðtæk í verslunum og við höfum svo sem engin staðfest 100% dæmi um smit í því umhverfi en við getum ekki heldur útilokað það,“ segir Rögnvaldur.

Samkomutakmarkanir hafi líka áhrif á netverslun

Albert segir að Lindex hafi tekið fullt tillit til aðstæðna í samfélaginu fram að þessu, til að mynda með því að skipta upp í sóttvarnahólf, framfylgja grímuskyldu og hvetja viðskiptavini til að halda fjarlægð með merkingum.

Þá hafi Lindex eflt sína netverslun en að fjöldatakmörk takmarki ekki síður getu starfsmanna til að afgreiða mikið magn netpantanna. 

Aðspurður um það hvort hann hafi áhyggjur af hópamyndun fyrir utan verslanir Lindex í dag segist hann deila þeim áhyggjum þríeykisins að þessi jól muni reynast áskorun fyrir alla, þar á meðal verslanir og að allir þurfi að leggja sitt að mörkum til að reyna að tryggja að allir geti átt sem eðlilegasta jólahátið.

Svartur föstudagur á morgun í öllum verslunum 👽 20% afsláttur af öllum vörum í dömudeild og 20-50% afsláttur af völdum vörum í undirfata-og barnadeild 😎 #blackfriday2020

Posted by LINDEX Iceland on Thursday, November 26, 2020