Áfengisnetverslunin Acan Wines var opnuð í maí síðastliðnum en að baki versluninni standa þeir Hjörvar Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, og Einar Freyr Bergsson, sölu- og markaðsstjóri fyrirtækisins. Að þeirra sögn hefur allt gengið eins og í sögu síðan þeir hófu rekstur.

„Við höfum séð þvílíka aukningu í rekstrinum hjá okkur, nú höfum við aðeins verið með opið síðan í maí og við sjáum aukningu í sölu með hverjum mánuði. Það bætist stöðugt við úrvalið hjá okkur. Við höfum verið að taka inn vörur frá íslenskum brugghúsum og birgjum, auk þess sem við flytjum inn vörur sjálfir í gríð og erg,“ segir Einar og bætir við að hann sé virkilega ánægður með viðtökurnar.

„Við höfum fengið þvílíkt góðar viðtökur frá samfélaginu í kringum okkur, nú sérstaklega vegna heim­sendingarþjónustunnar og góðs vöruúrvals.“Einar segist skynja það að fólk sé almennt ánægt með þjónustuna og að fólk sé jákvætt gagnvart því að heimila þessa starfsemi.

„Fólk hefur lýst yfir mikilli ánægju með þetta fyrirkomulag hjá okkur og margir góðir fastakúnnar sem versla ekki á öðrum stöðum en hjá okkur. Auðvitað eru ekki allir sammála þessari þróun en það er bara gangur lífsins.“

Nýverið funduðu Einar og Hjörvar með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra, sem er að þeirra sögn jákvæður gagnvart því að ráðast í breytingar á regluverkinu í kringum netverslanir með áfengi.

„Fundurinn gekk vel og margt áhugavert kom fram, þar ræddum við meðal annars hugsanlegt regluverk í kringum starfsemina, kosti og galla. Við sjáum að vilji löggjafans er sá sami og okkar, það þurfa að vera leikreglur og þær koma með skýru regluverki.“

Einar kveðst vera bjartsýnn á að nýtt regluverk muni líta dagsins ljós.

„Það er nú þegar búið að brjóta ísinn með brugghúsafrumvarpinu og nú tekur bara við að sigla skipinu í höfn.“

Einar gefur lítið fyrir þá gagnrýni að ef starfsemin verði heimiluð fari þjónusta versnandi og verð muni hækka.

„Við höfum oft heyrt að með þessari þróun fari þjónustan versnandi og verðin upp. Það er bara gömul mýta. Við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að veita fagmannlega þjónustu og sanngjörn verð, við viljum að allir starfsmenn séu kunnugir vörunum og geti ávallt svarað öllum spurningum viðskiptavina okkar.“

Einar bætir við að margir spennandi hlutir séu í bígerð hjá Acan Wines.

„Við erum farin að horfa lengra fram í tímann í þessum málum og erum að vinna í stærðarinnar verkefni sem kemur til með að líta á dagsins ljós bráðlega.“