Væntingavísitala Gallup stóð í sínu hæsta gildi í þrjú ár í mars síðastliðnum. Vísitalan mælist meira en tvöfalt hærri en í október 2020, að því er kemur fram í umfjöllun Íslandsbanka um málið.

Væntingavísitala Gallup mældist 114,4 stig í mars, samanborið við 47,2 stig í október síðastliðnum. Gildið 100 endurspeglar jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni meðal svarenda. Má því segja að nokkru hærra hlutfall almennings hafi verið bjartsýnt í liðnum marsmánuði en hinir sem telja ástand og horfur slæmt.

Meirihluti svarenda í mars töldu að núverandi ástand í samfélaginu sé slæmt. Langflestir eru hins vegar á þeirri skoðun að aðstæður verði betri að hálfu ári liðnu. Bakslag í þróun COVID-19 faraldursins og hægari gangur bólusetningar en vonast var til virðist þannig ekki hafa slegið að ráði á þessar væntingar enn sem komið er.

Alls töldu tæplega 14 prósent svarenda líklega að þau myndu festa kaup á bifreið á næstunni og allmargir eru sagðir huga að fasteignakaupum til skemmri tíma.

Tæp 40 prósent svarenda hyggja á utanlandsferðir á næstu mánuðum, en þetta hlutfall er jafnan í kringum 75 prósent. Ferðaþorsti landsmanna hefur því ekki náð sömu hæðum og vanalega, enn sem komið er.