Ágústa Johnson, eigandi og framkvæmdastjóri Hreyfingar, segir að þær lokanir sem líkamsræktarstöðvar hafa þurft að sæta á þessu ári hafi verið rekstrinum þungbærar. Engu að síður hafi tekist að nýta tímann til ýmissa endurbóta. Heimsfaraldurinn hafi jafnframt opnað augu margra fyrir því hversu mikilvæg líkamleg hreysti sé öflugu ónæmiskerfi. Ágústa bindur vonir við að hægt verði að opna líkamsræktarstöðvar aftur í janúar með viðeigandi takmörkunum.

Hvað gekk vel á árinu 2020?

Árið fór sannarlega öðruvísi en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi árs. Kórónuveiruheimsfaraldur hefur haft gríðarlega alvarleg áhrif á starfsemi heilsuræktarstöðva. Í heildina hefur okkur verið gert að hafa starfsemina lokaða í um fimm mánuði á árinu.

Það sem gekk vel í Hreyfingu var að okkur tókst að nýta lokunartímann fyrir ýmsar endurbætur á húsnæði og aðstöðu. Við réðumst í algjöra endurnýjun á tækjasölum hjá okkur, endurskipulögðum ýmis rými og fundum illa nýttu rými betri nýtingu. Einnig gerðum við breytingar í Hreyfing Spa og erum að bæta við nýrri glæsilegri slökunaraðstöðu og spa-aðstöðu fyrir litla hópa.

Óhætt er að segja að Hreyfing sé komin í sitt allra besta form og tilbúin að taka á móti gestum við fyrsta tækifæri sem vonandi kemur um miðjan janúar.

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

Það sem var krefjandi var augljóslega sú staðreynd að starfsemin var lokuð í hátt í hálft ár. Vitaskuld hefur slíkt afar alvarlegar afleiðingar fyrir hvaða rekstur sem er. En í tilfelli heilsuræktarstöðva eru afleiðingarnar víðtækari þegar tugþúsundir iðkenda komast ekki í ræktina sína og víst að slíkt hefur haft neikvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu manna og sér ekki fyrir endann á því.

Það á eftir að koma í ljós hver langtímaáhrif aðgerða vegna Covid19 munu verða og hvaða þýðingu þær munu hafa fyrir almannaheilsu.

Jafn mikilvægt og það er að ná tökum á faraldrinum og fyrirbyggja COVID-smit, þá megum við ekki gleyma því að undanfarna áratugi höfum við átt við risastóran heimsfaraldur að etja sem við eigum langt í land með að leysa, enda vandinn mjög vaxandi. Um er að ræða lífsstílstengda sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2, ofþyngd og fleira. En talið er að um 20 milljónir manna muni látast í heiminum á árinu 2020 af völdum hjarta- og æðasjúkdóma og eru þeir sjúkdómar enn um 50 prósent af aldursstöðluðum dánarorsökum á Vesturlöndum. Til samanburðar hafa nú látist tæplega 1,7 milljónir manna af völdum COVID-19 um heim allan.


Ekki má svo gleyma áhrifunum á andlegu hliðina, svo sem aukinni tíðni þunglyndis og fleiru. Það á eftir að koma í ljós hver langtímaáhrif aðgerða vegna COV­ID-19 munu verða og hvaða þýðingu þær munu hafa fyrir almannaheilsu.

Hvernig horfir árið 2021 við þér í rekstrinum?

Með tilkomu bóluefnis mun lífið vonandi komast í nokkuð eðlilegt horf fyrir lok fyrsta ársfjórðungs og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og vona að við fáum að hefja okkar starfsemi í janúar með þeim takmörkunum og sóttvarnaaðgerðum sem þarf og að ekki muni koma til frekari lokana. Það mun vissulega taka tíma að byggja upp starfsemina að nýju í það horf sem var í upphafi ársins 2020. En ég er mjög bjartsýn og sannfærð um að okkur muni takast vel til með það.

Kórónuveirufaraldurinn hefur vafalaust opnað augu margra um hve góð heilsa, öflugt ónæmiskerfi og líkamleg og andleg hreysti skiptir sköpum fyrir okkur og hvað það er að miklu leyti undir okkur sjálfum komið að rækta heilsuna og byggja okkur upp andlega og líkamlega með ástundun heilsusamlegs lífernis alla daga.