Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance, segir að horfur á innlendu mörkuðunum séu nokkuð bjartar þó svo að stór áskorun blasi við.

„Það mun vera stór áskorun fyrir fjármálamarkaði að það er fyrirséð að vextir munu hækka bæði hér á landi og erlendis. Það er áskorun að fjárfesta í hækkandi vaxtaumhverfi og áhugavert að fylgjast með hvaða áhrif það hefur á fyrirtæki og skuldabréfamarkað,“ segir Valdimar og bætir við að hann búist við hóflegum vaxtahækkunum á árinu.

„Það er líklegt að það verði 25 punkta hækkanir fremur reglulega. Seðlabankinn þarf aðeins að finna hvernig vaxtahækkanirnar bíta heimilin og fasteignamarkaðinn því við erum í breyttu landslagi hvað varðar fasteignalánin. Nú eru til að mynda mikill fjöldi þeirra óverðtryggður og jafnvel á breytilegum vöxtum.“

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance.

Valdimar bætir við að þó vinni ýmislegt með markaðnum þrátt fyrir komandi vaxtahækkanir. „Maður sér fyrir sér að rekstur fyrirtækja eigi að vera sterkur áfram þannig hann eigi eftir að standa undir verðlagningu flestra félaga í Kauphöllinni. Þannig ef við gerum ráð fyrir að það verði ágætis hagvöxtur til dæmis með góðri afkomu í sjávarútvegi, auknum útflutningi vegna sjávarafurða, fjölgun ferðamanna og áframhaldandi velgengni í nýsköpun þá ætti að ganga vel. Það er ýmislegt sem bendir til þess að fyrirtækin standi traustum fótum og þar af leiðandi ætti hlutabréfamarkaðurinn að standa á ágætis stoðum næstu misserin.“

Gísli Halldórsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, segir að það stefni í spennandi ár á mörkuðum. „Margt bendir til þess að nýskráningar í Kauphöll gætu orðið fleiri í ár en í fyrra og að þær verði meðal annars í atvinnugreinum sem eru ekki til staðar í Kauphöllinni í dag,“ segir Gísli og bætir við að fjölmörg félög hafi boðað skráningu eða séu að skoða það.

„Miðað við aukna þátttöku einstaklinga, ekki síst í gegnum útboð, og þá staðreynd að veltutölur og virkni á markaði hérlendis standast flestum mörkuðum snúninginn, er óskandi að þau félög sem hyggja á skráningu á næstunni horfi sem flest til þess að hið minnsta tvískrá sig hér á landi.“

Gísli Halldórsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum.
Aðsend mynd.

Gísli bætir við að á þessu ári sé líklegt að innflæði verði á hlutabréfamarkaði. „Hvað markaðsaðstæður varðar er líklegt að við munum áfram sjá innflæði á markaðinn, uppsafnaður sparnaður heimilanna er talsverður og sé horft til þess að sækja jákvæða raunávöxtun þarf að horfa til áhættumeiri eignaflokka en innlána. Þá er rekstrarumhverfi skráðu félaganna almennt gott og þrátt fyrir að ekki sé lengur til staðar verulegur afsláttur á rekstrarmargfaldara í erlendum samanburði eru ummerki bólumyndunar ekki til staðar. Það er þó langsótt að hafa væntingar um annað ár í líkingu við árið 2021 og þyrfti að koma til talsverðs rekstrarbata til að svo yrði. Margt bendir þó til þess að tækifæri geti legið víða og með frekari skráningum á markaði, vonandi hjá fyrirtækjum í vaxtarfasa, eykst breiddin sem í boði er á markaði,“ segir Gísli.

Valdimar segir jafnframt að vísbendingar séu um að ákveðnir geirar erlendis séu yfirverðlagðir. „Hvað varðar erlenda markaðinn þá eru ákveðin teikn á lofti um að það séu ákveðnar bólur í hinum ýmsu geirum sem getur leitt til verðleiðréttinga,“ segir hann en bætir við að ekki séu miklar líkur á að sú leiðrétting hafi mikil áhrif hérlendis.

„Mögulega gæti það haft einhver áhrif vegna hlutfallslegrar verðlagningar. En umrædd fyrirtæki eru með lítinn hagnað í dag og litlar sem engar væntingar um hagnað í framtíðinni. Dæmi um slík fyrirtæki erlendis eru einhver tækni og nýsköpunarfyrirtæki.“ Hann bætir við að á heildina litið standi hagkerfi bæði hérlendis og erlendis traustum fótum.

„Áhrif faraldursins voru víða neikvæð en hér á landi einskorðaðist það að mestu leyti við ferðaþjónustuna og tengdar greinar. Sé horft á aðra atvinnustarfsemi hafði faraldurinn ýmist minni áhrif en óttast var eða aðlögunarhæfni fyrirtækjanna var þeim mun meiri"

Gísli segir að óhætt sé að segja að árið 2021 hafi verið skrautlegt á fjármálamörkuðum heimsins og að mörgu leyti framhald af árinu 2020. Covid hafði veruleg áhrif og hefur enn.

„Áhrif faraldursins voru víða neikvæð en hér á landi einskorðaðist það að mestu leyti við ferðaþjónustuna og tengdar greinar. Sé horft á aðra atvinnustarfsemi hafði faraldurinn ýmist minni áhrif en óttast var eða aðlögunarhæfni fyrirtækjanna var þeim mun meiri, í því samhengi mætti telja til fjölmargar tæknilausnir sem bæði hjálpuðu til við að milda áhrif faraldursins og eins til að byggja undir nýjan vöxt. Þetta var þemað síðari hluta ársins 2020 sem hélt svo áfram inn í 2021.“

Valdimar segir að síðasta ár hafi verið mun betra á mörkuðum en útlit var fyrir í byrjun. „Efnahagsbatinn var hraðari og meiri en margir gerðu ráð fyrir. Seðlabankinn byrjaði að hækka vexti strax í maí á síðasta ári en í byrjun 2021 voru ekki sérstakar væntingar um það að vaxtahækkanir myndu byrja svo snemma eða byrja yfirhöfuð. Það sem stóð upp úr árið 2021 var hversu seigt efnahagslífið var að standast þetta áfall. En það má hafa í huga að það sem varð til þess að það gekk svona vel var lágt vaxtastig, mjög lágir og neikvæðir raunvextir og peningaprentun.“

Gísli segir jafnframt að upptalning á jákvæðum punktum á árinu gæti verið ansi löng.„Velta á aðalmarkaði jókst um tæp 75 prósent á milli ára og þá jókst markaðsvirði skráðra félaga um rúma þúsund milljarða eða tæp 70 prósent bæði vegna nýskráninga á markað og hækkana á markaði. Talandi um nýskráningar þá fóru fram fjögur afar vel heppnuð hlutafjárútboð á árinu, Íslandsbanki, Síldarvinnslan, Solid Cloud og Play. Þá er ekki hægt að tala um árið án þess að minnast á íslenskan almenning sem tók stór skref á árinu inn á innlendan hlutabréfamarkað en yfir 30.000 einstaklingar eiga nú skráð hlutabréf sem er margföldun á stuttum tíma og tölur í líkingu við þetta hafa ekki sést í áratug.“

Mörg spennandi verkefni í farvatninu

Gísli segir að mörg spennandi verkefni séu í farvatninu og verði mikið að gera hjá fyrirtækjaráðgjöfum landsins sökum þessa.

„Fróðlegt verður að sjá hvernig Síminn hyggst ráðstafa söluandvirði Mílu, hvort Marel finnur spennandi yfirtökuskotmörk, hvernig fer með lóðaverkefni smásölufélaganna, hvort dragi eitthvað til tíðinda af vegferð Tempo hjá Origo, hvernig mun vegna á yfirstandandi loðnuvertíð og hvernig mun takast til með frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, til að nefna nokkur atriði,“ segir Gísli og bætir við að umfram eigið fé sé til staðar víða og líklegt sé að arðgreiðslur og endurkaup til hluthafa muni tvöfaldast milli ára.

„Spennandi verður að sjá hvort frekari þróun verður í uppfærslu markaðarins úr Frontier vísitölum yfir í Emerging en eignarhald erlendra aðila á innlendum hlutabréfum er með lægsta móti á heimsvísu og æskilegt væri að það myndi aukast nokkuð.“