Fram­kvæmd við skráningu fjar­skipta­fé­lagsins Nova á hluta­bréfa­markað var valin verstu við­skipti ársins 2022. Prýði­leg við­skipti fyrir selj­endur en mikil von­brigði fyrir kaup­endur og hlut­hafa að mati dóm­nefndar.

Verstu við­skipti ársins, að mati dóm­nefndar Markaðarins, tengdust hluta­fjár­út­boði fjar­skipta­fyrir­tækisins Nova. Nokkuð stórt al­mennt út­boð sem endaði í stóru tapi fyrir al­menna fjár­festa. Þótt út­boðið hafi vissu­lega verið góð við­skipti fyrir selj­endur færir dóm­nefnd þau rök fyrir niður­stöðu sinni að heildar­niður­staðan hafi verið mikil von­brigði.

„Sú stað­reynd að gengi fé­lagsins sé ekki hærra en raun ber vitni segir sína sögu. Fjár­festar höfðu áður keypt hlut í fé­laginu í að­draganda út­boðs en það hljóta að teljast mikil von­brigði að ekki hafi náðst að klára út­boðið á hærra gengi. Það er yfir­leitt for­senda fyrir far­sælu gengi bréfanna fram á veginn,“ segir í rök­stuðningi á­lits­gjafa Markaðarins.

Dóm­nefnd nefnir sér­stak­lega að fag­fjár­festar hafi setið hjá í út­boðinu, meðal annars vegna stöðunnar á verð­bréfa­mörkuðum. Á sama tíma hafi verið á­kveðið að stækka út­boðið.

„Fé­lagið hefur ekki staðið undir verð­matinu þótt það sé í raun dæmi­gert arð­greiðslu­fé­lag."

„Fé­lagið hefur ekki staðið undir verð­matinu þótt það sé í raun dæmi­gert arð­greiðslu­fé­lag. Þar af leiðandi hefði átt að vera frekar ein­falt að verð­leggja það.“

Einn af á­lits­gjöfum Markaðarins telur engan vafa leika á að verð­þróun á eftir­markaði hafi verið tals­vert mikið undir væntingum. „Því miður verður að teljast lík­legt að við­brögð al­mennings verði dræm í næstu skráningum. Selj­endum tókst ekki að fá stærri fjár­festa til að taka þátt í út­boðinu og skamm­tíma­sjónar­mið um verð voru látin ráða för.“

Að því sögðu telur dóm­nefnd slæmt hlut­fjár­út­boð Nova lítið annað en tíma­bundið hik. Fé­lagið sé á­fram á­lit­legt og stjórn­endur öflugir.

„Nova mun án efa ná sér á strik í kaup­höllinni þrátt fyrir bras á byrjunar­stigi. Rekstur þess og á­ætlanir gefa það sterkt til kynna. Fé­lagið mun vaxa út úr þessu og Nova stendur á­fram á sterkum grunni,“ segir í einu á­liti dóm­nefndar Markaðarins.

Mikil­vægri banka­sölu klúðrað


Fyrir utan hluta­fjár­út­boð Nova voru á­lits­gjafar Markaðarins á því að sala ríkis­sjóðs á 22,5 prósenta hlut í Ís­lands­banka hefðu verið klúður ársins í við­skipta­lífinu. Það verður að teljast nokkuð merki­legt þar sem sömu við­skipti rötuðu einnig á topp­lista dóm­nefndar yfir bestu við­skipti ársins.

Einn með­lima dóm­nefndar segir að þótt gott verð hafi vissu­lega fengist fyrir bréfin, sé það um það bil það eina já­kvæða við söluna.

Valgarður Gíslason

„Fjár­hags­leg niður­staða fyrir ríkið var fín en mjög illa staðið að ferlinu í heild sinni, þá sér­stak­lega upp­lýsinga­gjöf. Ó­reiðan var al­ger og ein­staka þættir sölu­ferlisins enn í rann­sókn, til dæmis hjá fjár­mála­eftir­liti Seðla­bankans. Ein­stak­lega slæm við­skipti þar sem þau rýra traust á bæði stjórn­kerfinu og fjár­mála­kerfinu.“

Í sama streng taka aðrir á­lits­gjafar. Heildar­bragur fram­kvæmdarinnar við söluna hafi valdið miklum skaða, al­ger­lega að ó­sekju.

„Vinnu­brögð við söluna á hlut Ís­lands­banka í lokuðu ferli voru engan veginn boð­leg og í raun til skammar. Bæði fyrir ríkis­valdið og þá sem um þræðina héldu. Niður­staðan er að nú ríkir ó­vissa um frekari sölu á hlut ríkisins í bankanum. Svo klúðurs­lega var haldið á þessum málum. Ein­stak­lega ó­heppi­legt mál allt saman,“ segir meðal annars í rök­stuðningi dóm­nefndar Markaðarins.

Önnur við­skipti sem oftast voru nefnd

Arion brennir peningum
„Arion banki hefði betur tekið þá á­kvörðun að af­skrifa United Silicon fyrir löngu síðan í stað þess að brenna peningum allt árið við að reyna að koma kísil­verinu aftur á koppinn.“

Van­hugsað upp­hlaup
„Upp­gjörs­hótun í mál­efnum ÍL-Sjóðs eru ekki beint við­skipti en verð­skulda að minnst sé á gjörninginn. Dæmið sett upp ein­hliða út frá hlið ríkisins án þess að tekið sé inn í um­ræðuna á­hrif á líf­eyris­sjóðina, trygginga­fræði­legt tap og lög­fræði­leg á­lita­efni. Olli veru­legri lækkun á verði skulda­bréfa sjóðsins á tíma­bili þar sem markaðurinn þurfti ekki frekari ó­vissu. Öllum er ljóst að það þarf að bregðast við mál­efnum sjóðsins en þetta upp­hlaup fjár­mála­ráð­herra var van­hugsað.“

Ís­lendingar litlir í sér
„Ís­lendingar eiga það til að verða heldur litlir í sér frammi fyrir er­lendum fjár­festum og láta þá snúa á sig. Stóri FTSE-dagurinn var gott dæmi um það.“