„Ég get ekki lýst þessu öðruvísi en sem gríðarlegu reiðarslagi fyrir þjóð sem byggir afkomu sína í sívaxandi mæli á komu ferðamanna til landsins og alveg ljóst að áhrifin sem við stöndum frammi fyrir eru langt umfram það sem við gátum ímyndað okkur fyrir tveimur vikum síðna, tíu dögum, jafnvel á mánudaginn,“ sagði Bjarni Benediktsson í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hef­ur lýst yfir 30 daga banni við ferðum frá Evr­ópu til Banda­ríkj­anna til að reyna að hefta út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar.

„Við verðum að horfast í augu við það að það verða gríðarleg áföll í ferðaþjónustunni með fækkun starfa og á hinum endanum erum við að bregðast við því með því að styrkja stuðningskerfi okkar og smíða leiðir til þess að þeir sem lenda í slíkum áföllum fái stuðning frá okkur hinum vegna þess að við ætlum að ná okkur aftur upp úr þessu,“ segir Bjarni. Mikilvægt sé að stjórnvöld séu komin í samtal við fjármálakerfið um lausafjárfyrirgreiðslu til fyrirtækja sem lenda í tímabundnum vanda.

„Það sem við erum að horfa til er það að fleyta þeim í gegnum erfiða tímann svo að lágmarka megi áhrif niðursveiflunnar. Þá erum við að tala um það að bjarga sem flestum störfum og valda sem minnstri röskun.“

Aðspurður segist Bjarni ekki gera ráð fyrir því að Ísland fái undanþágu frá ferðabanninu.

„Við munum fara yfir alla kosti en ég mun ekki nálgast þetta þannig að ég geri ráð fyrir því að þetta reddist. Við gerum ráð fyrir því að þetta verði algjört reiðarslag sem geti varið í einhvern tíma og við verðum að vera reiðubúin fyrir það,“ segir Bjarni.

Spurður hvort ríkið muni hlaupa undir bagga með Icelandair, sem á gríðarlega mikið undir flugsamgöngum til Bandaríkjanna, segir Bjarni að allir sjái í hendir sér að ferðabannið sé reiðarslag fyrir fyrirtækið.

„Við munum gera allt sem er raunhæft til að styðja félagið í gegnum erfiða tíma. Það er ekki tímabært að úttala sig í því,“ segir Bjarni.

„Það er líka þess vegna sem maður snöggreiðist innra með sér að sjá ákvarðanir eins og þessa sem manni finnst að eigi ekki að geta komið upp einhliða og án fyrirvara. Við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni. Þetta sýnir enn og aftur að þegar svona krísur koma upp er hver sjálfum sér næstur.“

Góðu fréttirnar, að sögn Bjarna, eru þær að stjórnvöld hafi aldrei verið í sterkari stöðu til að fást við áföll.

„Við höfum greitt upp mikið af skuldum, við höfum notið góðra lánskjara að undanförnu og við höfum einfaldlega getuna til þess að taka áfall í fangið. Það var að hægja á gangverkinu hjá okkur, við fundum fyrir því að efnahagsspár voru sífellt að spá fyrir um minni umsvif í hagkerfinu. En við sáum fram á að komast út úr því á skömmum tíma og tryggilega. En þetta setur hlutina í nýtt samhengi.“