Áhyggjuefni er hversu tvístruð launþegahreyfingin er orðin og draga mun úr áhrifum hennar ef mismunandi hópum innan hreyfingarinnar tekst ekki að sameina sín sjónarmið betur. Þetta er mat Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem var í viðtali í sjónvarpsþætti Markaðarins á Hringbraut í gærkvöldi.

„Það er mikið áhyggjuefni, ég verð bara að segja það, hvað launþegahreyfingin er orðin tvístruð. Mér finnst eins og þetta séu eins og indjánahópar, hver með sinn höfðingjann og það eru innbyrðis átök. Þetta mun hafa þau áhrif, ef menn ná ekki að sameina betur sjónarmið sín, að draga mun úr áhrifum launþegahreyfingarinnar. Þetta getur líka verið skaðlegt ef ætlunin er að ná einhvers konar heildarniðurstöðu í kjaraviðræðum á vinnumarkaði. Ef hver hópur fer fram með sínar sérkröfur þá getur innbyrðis samhengið ekki orðið annað en að allir fá mikið. Það leiðir fram þá niðurstöðu að það er hætta á því að við tökum meira út en innistæða er fyrir,“ segir Bjarni.

Brattar hækkanir

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði mikið á síðasta ári, þrátt fyrir að ein dýpsta kreppa síðari tíma hafi leikið hagkerfi landsins grátt. Mestar launahækkanir voru meðal opinberra starfsmanna, einkum og sér í lagi meðal starfsmanna sveitarfélaga, sem sáu margir hverjir sín laun hækka um hartnær fimmtung.

„Við getum ekki horft fram hjá lögmálum hagfræðinnar. Ef við hækkum launin stanslaust umfram framleiðniaukningu þá sligum við fyrirtækin, þau munu ekki rísa undir slíku. Launahlutfall fyrirtækja hér á landi var mjög hátt fyrir síðustu kjarasamningshækkanir, kannski með því allra hæsta innan OECD og á Norðurlöndunum. Þannig að þetta er sannarlega eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af,“ segir Bjarni, sem vill þó ekki úrskurða um hvort undanfarnar launahækkanir hafi verið umfram þolmörk:

„Vinnuveitendahliðin hefur sagt að meira hafi verið tekið út en var til skiptanna. Við skulum láta þá [aðila vinnumarkaðarins, innsk. blm.] takast á um það nákvæmlega hvaða rými var fyrir hendi í Lífskjarasamningnum. En mér sýnist, miðað við þær launahækkanir sem þegar voru komnar fram og stöðuna í hagkerfinu, lítið eða ekki neitt hafa verið skilið eftir á borðinu.“

Bjarni segir nauðsynlegt að hægt sé að eiga heiðarlegt samtal um hvert svigrúm til launahækkana er hverju sinni.

„Þar komum við aftur að því sem ég nefndi, þegar þú ert með sundraða launþegahreyfingu þá skiptir það einstaka hópa ekki máli hvað mikið er til skiptanna í heild, heldur er hver að horfa á málin frá sínum sjónarhóli og það getur á endanum haft keðjuverkun í för með sér, sem leiðir til þess að of mikið er tekið út og við sitjum uppi með verðbólgu og hærra vaxtastig.“

Engin óðaverðbólga

Tólf mánaða verðbólga mælist um þessar mundir 4,6 prósent og hefur ekki verið hærri um margra ára skeið.

„Við verðum að horfa á þessar verðbólgutölur og láta þær verða okkur áminningu um að allir þeir sem geta haft áhrif á þróun verðlags leggi eitthvað af mörkum. Það fer ekki fram hjá neinum að það eru verðhækkanir á húsnæðismarkaði sem eru að baki verðbólgunni að stórum hluta til. Það á svo eftir að koma í ljós að hvaða marki launahækkanir eru að þrýsta á verðlag. En höfum það hugfast að þessar verðbólgutölur eru ekki merki um óðaverðbólgu,“ segir Bjarni

Vill ljúka sölu á öllum Íslandsbanka við fyrsta tækifæri

Fyrsta útboð vegna sölu á eignarhlut ríkissjóðs á 25 til 35 prósenta hlut í Íslandsbanka mun að öllum líkindum fara fram í júnímánuði. Heyrst hefur á markaði að mörgum hugnist ekki nema miðlungsvel að vera minnihlutaeigandi á móti ríkissjóði. Bjarni segir að persónulega myndi hann kjósa að halda áfram sölu á eignarhlutum í bankanum hið fyrsta.

„Ég hef sjálfur talað fyrir því að við losum okkur alveg út úr eignarhaldinu. Ef ég fengi einhverju um það ráðið þá myndum við klára þennan áfanga og við myndum nota fyrsta tækifæri á nýju kjörtímabili til að halda áfram að losa okkur við eignarhluti í bankanum. Við erum skuldbundin samkvæmt skilmálum útboðsins til að selja enga fleiri hluti næstu sex mánuði eftir fyrstu sölu, þannig að þetta verður verkefni næsta kjörtímabils,“ segir hann.

Hvað varðar Landsbankann segir Bjarni að stefnan sé sú að ríkið eigi til framtíðar ráðandi hlut í Landsbankanum, en selji afganginn. „Sá hlutur gæti legið á bilinu 35 til 50 prósent. Eignarhald ríkissjóðs á hlut í Landsbankanum yrði til þess fallið að tryggja að hér yrði áfram banki með höfuðstöðvar á Íslandi,“ segir Bjarni.