Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að afnema þurfi bankaskattinn til að íslensku viðskiptabankarnir geti búið við samkeppnishæf skilyrði.

„Þetta er mikilvægt. Grundvallaratriði er einnig að bankarnir búi við eðlileg, samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum. Þessi sérstaki skattur þarf því að fara,“ skrifar Bjarni á Twitter og vísar í frétt Markaðarins frá því í dag.

Afnám sérstaks bankaskatts, sem lagður er á íslensku bankana, myndi hækka söluvirðið sem ríkissjóður getur búist við að fá fyrir Landsbankann og Íslandsbanka um rúmlega 70 milljarða króna samkvæmt greiningu Bankasýslu ríkisins sem kynnt var á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku.

Lækkun skatthlutfallsins niður í 0,145 prósent, eins og frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra kveður á um, mun hækka söluvirðið um 44 milljarða króna.

Greiningin nær aðeins yfir tilfærsluna sem verður milli skatttekna ríkissjóðs og þess verðs sem ríkissjóður getur búist við að fá fyrir bankana. Bankasýslan bendir á að lækkun bankaskattsins hafi víðtækari áhrif. Þannig geti lækkun skattsins stuðlað að lækkun útlánsvaxta og útlánaaukningu sem vega upp á móti tekjutapi ríkisins. Bankaskattur vegna ársins 2018 nam um 9 milljörðum króna á síðasta ári.

„Það þarf hvort tveggja að meta áhrif skattsins á ríkissjóð og raunhagkerfið,“ sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í samtali við Markaðinn.