„Það er mjög langt í þetta Páll, það er mjög langt í þetta,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, þegar hún var spurð um mögulega sameiningu Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar í þættinum Pólitíkin með Páli Magnússyni sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.
Þorgerður Katrín og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, eru gestir þáttarins sem er á dagskrá kl. 19:30 í kvöld. Páll tók það fram að þetta sé í fyrsta sinn sem Bjarni og Þorgerður Katrín mætist tvö ein í sjónvarpi sem pólitískir andstæðingar, en Þorgerður Katrín var í Sjálfstæðisflokknum til ársins 2016.
Hætta á samþjöppun
Þeim var heitt í hamsi á tímabili þegar þau ræddu saman um mál á borð við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og kvótakerfið.
Bjarni benti á að stutt væri síðan flokkarnir tveir hefðu verið saman í ríkisstjórn og gætu vel unnið saman. „Það var auðvitað algjör hörmung hvernig því lauk, en sú stjórn var með meirihluta og ágætis stjórnarsáttmála þar sem við lýstum einmitt vilja til að takast á við eitthvað af þessum álitamálum sem að Viðreisn er að setja á dagskrá en segir í hinu orðinu að við viljum ekki ræða,“ sagði Bjarni.
„Við erum á margan hátt með markaðsdrifið sjávarútvegskerfi í dag, við erum með veiðigjöld sem hlutfall af aflaverðmætinu. Er hægt að finna betra kerfi? Það hefur enginn annar fundið betra kerfi. Það sem mér finnst Viðreisn gera og komast upp með á ódýran hátt er að setja það á dagskrá að það megi leysa allt með því að setja allt á uppboð og með einhverjum markaðslausnum, en það koma aldrei neinar útfærslur. Það komu engar útfærslur frá Þorgerði þegar hún var sjávarútvegsráðherra og við höfum ekki séð það. Það sem við vitum er að þetta kallar fram hættu á því að það verði gríðarlega mikil aukin samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi.“
„Jú.“ - „Nei.“
Þorgerður Katrín sagði að þegar hún hafi verið sjávarútvegsráðherra hafi hún beitt sér fyrir því að þverpólitísk nefnd næði sátt um kerfið, þar þurfi að auka gegnsæi en treysta þurfi markaðnum til að ákveða verðið. „Bjarni hefur farið þá leið að afkomutengja auðlindagjaldið, þar er bara verið að verðlauna skussana. Þannig er þetta ekki annars staðar. Það þarf að tímabinda…“
Páll spurði þá hvort kerfið væri betra annars staðar. Þorgerður beindi orðum sínum að Bjarna og sagði: „Af hverjum eigum við ekki að tímabinda samninga um auðlindanýtinguna, alveg eins og gert alls staðar annars staðar með aðra orkunýtingu, og setja 4 til 5 prósent á markað. Treysta markaðnum í stað þess að þú eða aðrir stjórnmálamenn ákveði prósentuna,“ sagði hún. Bjarni svaraði að bragði: „Við erum ekki að því.“
Þorgerður Katrín: „Jú.“
Bjarni: „Nei.“
Þorgerður Katrín: „Jú þið ákveðið á endanum hver er prósentan.“
Bjarni: „Aflaverðmætið ræður úrslitum.“
Þorgerður Katrín: „Það er ekki gegnsæi í fiskverði. Þetta veist þú. 30 prósent af opinbera fiskverðinu er undir því sem er eðlilegt aflaverðmæti…“
Bjarni: „Nei.“
Þorgerður Katrín: „Við erum að tala um að treysta markaðnum fyrir þessu og þau eru hrædd við það.“
Vilja ekki horfast í augu við galla
Bjarni sagði að vandamál Viðreisnar vera að flokkurinn vilji ekki horfast í augu við gallana á eigin tillögum. „Frambjóðendur Viðreisnar hafa sjálfir sagt að besta leiðin sé að hækka veiðigjaldið þá muni bara þeir sterku lifa af. Í dag viljum við fjölbreytt rekstrarform. Ef við færum uppboðsleiðina þá er alveg augljóst að við værum með mun fábreyttari sjávarafurðir og þetta yrðu færri og stærri aðilar. Þangað til Viðreisn og aðrir segja: Það hafa of margar veiðiheimildir horfið af Norðausturhorninu. Þá koma undanþágur og kerfið verður flókið og óskiljanlegt og ógagnsætt þvert á það sem var ætlað í upphafi.“
Þorgerður svaraði: „Þetta er maður í mikilli vörn.“
Bjarni: „Ég er ekki í neinni vörn. Við vorum með stjórnarsáttmála um að skoða þetta.“
Þorgerður segir að flokkarnir væru sammála um margt en þar væri líka margt sem þau væru ósammála um: „Hann vill ekki treysta markaðnum til þess að ákveða verðið. Það er ótrúlega merkilegt.“
Bjarni kom kvótakerfinu til varnar: „Það er fyrirsjáanleikinn sem íslenska kvótakerfið býður upp á sem er svo verðmætur. Þess vegna erum við Íslendingar bestir í að skapa verðmæti úr þessum náttúruauðlindum,“ sagði Bjarni. Þorgerður Katrín greip orðið á lofti og segir: „Við viljum auka fyrirsjáanleikann með tímabundnum samningum…“
Bjarni: „Og setja allt í uppnám?“
Þorgerður: „Nei, við viljum 20 til 25 ára samninga sem er eitthvað sem þið viljið ekki bjóða upp á.“