Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að nýjum fjárveitingum á vegum ríkisins sé ekki fylgt nægilega vel eftir í því skyni að rýna í hvað fékkst fyrir peninginn.

Þetta sagði Bjarni í viðtali við Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem streymt var á YouTube. ASÍ stendur í aðdraganda Alþingiskosninganna í haust fyrir röð samtala við forystufólk flokkanna.

Drífa fullyrti við Bjarna skömmu áður en hann lét ofangreind orð falla að aukin einkarekstur eða einkavæðing í heilbrigðisþjónustu væri ekki það sem væri starfsfólki, sjúklingum og skattgreiðendum fyrir bestu.

„Ég er ekki sammála því,“ svaraði Bjarni. „Ef við vistum réttinn til að fá þjónustu hjá fólki og setjum hömlur á það, sem sá sem veitir þjónusta getur tekið til viðbótar við það sem fylgir sjúklingnum, þá held ég að það muni spretta fram lausnir og þjónustuleiðir sem muni gagnast öllum. Skattgreiðendum, sjúklingum og starfsfólki sem þú vísar til,“ sagði hann.

Bjarni sagði að það ætti að horfa á vandann út frá kerfinu. Vandinn við umræðuna sé að hún snúi að því að kerfið þurfi meiri pening. „Leitum frekar svara við spurningunni: Hvað kemur sjúklingum best?“ sagði hann

Aðspurður sagði hann að við myndum kasta á glæ tækifæri til að gera betur við fólk, ekki síst sjúklinga og aðra sem þurfi á þjónustu að halda „ef við afneitum kostununum við að hafa fjölbreytt heilbrigðiskerfi.“

Bjarni nefndi sömuleiðis að þegar ríkið veiti þjónustu væri það ekki alltaf að skila mestri framleiðni.