Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir mörg þeirra stóru verkefna sem blasað hafa við þjóðinni á undanförnum áratug, hefðu ekki gengið upp væri Ísland í Evrópusambandinu.

„Á rúmum áratug hefur íslenska þjóðin í tvígang gengið gegnum djúpar alþjóðlegar efnahagslægðir og sýnt mikla þrautsegju og aðlögunarhæfni. Íslenska krónan hefur ótvírætt sannað gildi sitt, styrkur efnahagslífsins er mikill og eftir allt þetta getum við fullum fetum sagt: framtíðin er björt.“ Þetta segir Bjarni í stöðuuppfærslu á Facebook.

„Það þurfti ekki ESB aðild til,“ segir hann og bætir við: „Raunar má slá því föstu að mörg þeirra stóru verkefna sem við höfum leyst á umliðnum árum hefðu alls ekki gengið upp með evrunni (afnám hafta) og önnur hefðu reynst okkur mun þyngri í skauti (heimsfaraldur) en utan ESB með sjálfstæða peningastefnu.“

„Eftir allt þetta getum við fullum fetum sagt: framtíðin er björt.“

Bjarni furðar sig á að því sé haldið fram á þessum tímapunkti og svo skömmu eftir kosningar að brýnt sé að sækja að nýju um aðild að ESB.

Stuðningur við aðild eykst

Vísar Bjarni þar væntanlega til orða formanns Samfylkingarinnar sem sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag að rétt væri að setja aðild aftur á dagskrá. Fyrir örfáum dögum birti Gallup könnun sem sýnir að stuðningur við aðild Íslands að ESB hefur aftur aukist og er nú nálægt 50 prósentum.

Bjarni rifjar upp aðildarferli vinstri stjórnarinnar eftir efnahagshrunið og segir að reynt hafi verið að telja þjóðinni trú um að aðild að ESB væri eina leiðin út úr efnahagslægðinni. „ESB átti jafnvel að bjarga okkur úr gjaldeyrishöftunum og svo virtist sem ganga ætti að óbilgjörnum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave málinu til að ryðja brautina fyrir vinsamlegar viðræður,“ segir Bjarni og heldur áfram: „Þessum málflutningi og framgöngu ríkisstjórnarinnar hafnaði íslenska þjóðin í kosningunum 2013. Flokkar sem höfðu það á sinni stefnuskrá að halda Íslandi utan ESB unnu stórsigur og aðildarviðræðum og viðtöku styrkja var í kjölfarið hætt og samninganefndin leyst upp.“

Gengið hafi vel í efnahagslífinu

Bjarni segir svo að gengið hafi mjög vel í íslensku efnahagslífi. Gjaldeyrishöftum hafi verið aflétt, ríkisskuldir lækkað ört og erlend staða þjóðarbúsins styrkst verulega og gjaldeyrisvaraforðinn aukinn, staða heimilana sterk og atvinnulífið lítið skuldsett. Kaupmáttur launa og bóta ekki áður verið meiri. Allt þetta án aðildar að ESB.

Bjarni viðurkennir að þátttaka í ESB geti vissulega snúist um meira en efnahagsmál og viðskipti. Stundum sé því haldið fram að hún snúist um að eiga þingmenn á Evrópuþinginu.

Varnarstefnan og nokkrir þingmenn í Brussel breyti engu

„Ég skal fyllilega játa það að EES samstarfið er langt því frá fullkomið en hvernig á það að breyta stöðunni í grundvallaratriðum að Ísland eigi 4-5 þingmenn í Brussel þegar þar eru fyrir 705 þingmenn annarra aðildarríkja?“ spyr Bjarni og snýr sér að næstu meintu ástæðu ESB aðildar:

„Að þessu sinni er því haldið fram að stríðið í Úkraínu breyti öllu. Sagt er að stríðið dragi fram mikilvægi þess að tilheyra varnarstefnu ESB. Þó liggur fyrir við höfum gætt að öllum okkar mikilvægustu hagsmunum í varnar- og öryggismálum með aðildinni að NATO og með varnarsamningnum við Bandaríkin.“

Uppgjöf að sópa öllum verkefnum í ESB hornið

Bjarni segist þó ekki muni reyna að stöðva umræðuna. Hún sé mikilvæg.

„Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir kjarna máls, skiljum söguna og grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Í þeirri umræðu mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja áherslu á að hagsmunum okkar er best borgið utan ESB. Það fylgir þeirri sýn að við séum ávallt tilbúin að axla ábyrgð á stöðu mála hér heima fyrir, finna lausnir og leysa úr málum af eigin rammleik á lýðræðislegan hátt í opnu og frjálsu samfélagi, en sópa ekki hvers kyns áskorunum eða viðfangsefnum stjórnmálanna út í ESB hornið í sífellu. Það er uppgjöf fyrir verkefnum samtímans.“