Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segist gríðarlega ánægður og sáttur við framkvæmd á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka. Rætt verður við fjármálaráðherra á Fréttavaktinni klukkan 18:30 í kvöld.

Bjarni segir að það hafi greinilega hafi verið mikil eftirspurn í þessu útboði en þetta fyrirkomulag hafi verið svokallað tilboðsfyrirkomulag að tillögu bankasýslunnar. Hann segir að sér sýnist að það sem hafi verð selt í bankanum sé það sama og á síðustu 300 dögum þannig að magnið sé gríðarlegt. Það hafi ekki verið hægt að gera ráð fyrir öðru en það væri einhver afsláttur.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata er gagnrýninn á söluna og segir að núverandi ráðherra eigi ekki að fá leyfi til þess að selja Íslandsbanka þar sem hann hafi sýnt fram á að stendur ekki undir þeirri ábyrgð sem því fylgir.

Það hafi komið berlega í ljós í síðasta útboði á hlutabréfum í Íslandsbanka þegar það hafi verið markmið að hámarka endurheimtur ríkissjóðs. Það sé auðvitað brandari miðað við hver niðurstaða útboðsins varð og 27 milljarðar af ríkisfé rann í gjafaumbúðum til kaupenda hlutabréfanna í Íslandsbanka, beint úr vasa almennings," segir Björn Leví.

Útboðsgengi bréfa í Íslandsbanka hefur hækkað um 5,3 prósent það sem af er degi. Í gær fór fram útboð Bankasýslu ríkisins á 22,5 prósentum á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem jafngildir 450 milljón hlutum í bankanum. Útboðsgengið var 117 krónur á hlut en gengi hlutabréfanna var komið í 123, klukkan 15:30 eða hafði hækkað um 2,8 milljarða króna.