Bjarni telur tvennt sem Már Wolfgang hélt fram ekki standast skoðun:

„Hið fyrra er að ef hugmyndir um að slíta ÍL-sjóði næðu fram að ganga myndi það líkjast greiðslufalli hjá ríkissjóði. Þessu verð ég að mótmæla harðlega. Möguleg slit ÍL-sjóðs myndu gjaldfella allar kröfur á sjóðinn. Við það virkjast ríkisábyrgðin sem tryggir uppgjör höfuðstóls og áfallinna vaxta. Ríkið mun því undir öllum kringumstæðum axla ábyrgð á skuldbindingum sínum gagnvart kröfuhöfum sjóðsins, í samræmi við skilmála og lög. Þetta heita efndir á ríkisábyrgðinni. Efndir eru andstaða greiðslufalls.

Síðara atriðið varðar lánstraust ríkisins. Því var haldið fram í þættinum að ef til slita sjóðsins kæmi og uppgjörs á ríkisábyrgðinni myndi það skaða lánstraust ríkissjóðs. Það stenst ekki skoðun.

Bjarni Benediktsson svaraði Má Wolfgang Mixa í Facebook-færslu.

Með því að eyða óvissu um uppgjör ÍL-sjóðs og standa við ríkisábyrgðina, sem er svokölluð einföld ábyrgð, er komið í veg fyrir frekari uppsöfnun vandans og gagnsæi og jafnræði tryggt. Slíkt eykur jafnan traust. Óvissa og óþarfa skuldaaukning dregur á hinn bóginn úr trausti. Að halda öðru fram líkist því að telja lánstraustið vaxa með hærri skuldum.

Helst bind ég vonir við að farsæl lausn fáist í málið með viðræðum ríkisins og kröfuhafa sjóðsins þar sem útgangspunkturinn verður að vera lagaleg staða málsins.

Ég mun hins vegar ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins. Það væri bæði óábyrgt og rangt. Sama hvað þeir sem horfa eingöngu á málið út frá þröngum hagsmunum kröfuhafans segja."

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, veltir fyrir sér á Facebook síðu sinni hvort Bjarni sé okkar eigin Truss og vísar þar til Liz Truss sem hrökklaðist úr forsætisráðherrastóli í Bretlandi aftir 45 daga eftir að markaðir brugðust mjög illa við áformum hennar um ófjármagnaðar skattalækkanir. Hún segir mistökin, sem séu rót hins ævintýralega fjártjópns Íbúðalánasjóðs vera eitt.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir líkir Bjarna Benediktssyni við hina lánlausu Liz Truss.

„Viðfangsefnið núna er hins vegar veruleiki dagsins í dag. Allir kostir í stöðunni eru slæmir og allir kostir í stöðunni eru gríðarlega dýrir fyrir almenning í landinu; hvort sem þetta tap fer í gegnum ríkissjóð eða í gegnum lífeyrissjóðina, þar sem sparnaður almennings liggur. Ekki síst eldri borgara. Mögulega leiðir þetta til þess að skerða þurfi lífeyrisgreiðslur. Þess vegna var upphafleg framsetning fjármálaráðherra um „sparnað“ fyrir ríkissjóð með ólíkindum.

Hagsmunirnir sem eru undir nema hundruð milljarða. Og í því ljósi er merkilegt að fjármálaráðherra hafi hellt olíu á eldinn með því að viðra hugmyndir, eða hótanir, um aðgerðir gegn lífeyrissjóðunum, og orðum um að ábyrgð íslenska ríkisins sé ekkert sérstök. Við höfum reyndar nýlega séð ýkt dæmi frá Bretlandi um hvaða áhrif yfirlýsingar ráðamanna geta haft á efnahag ríkis.

Hér eru viðbrögðin mikill titringur á fjármálamarkaði. Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hækkaði strax. Vaxtakostnaður ríkisins getur því aukist töluvert, ekki bara út af fjártjóninu heldur líka vegna yfirlýsinganna. Og svo má velta fyrir sér hvað verður um lánshæfismat ríkisins."

Skýrslan um ÍL- sjóðinn verður til umræðu á Alþingi á morgun.