Eftir um tíu ár verður bitcoin í gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands rétt eins og gull og Bandaríkjadalir, að mínu mati. Þetta segir Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku Digital Assets.

Daði starfaði í 15 ár á fjármálamarkaði, síðast sem verðbréfamiðlari hjá Fossum mörkuðum en gegndi sama starfi hjá Arctica Finance og var um skeið framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa. Hann tók nýverið að sér að leiða nýtt félag, fyrrnefnt Viska Digital Assets, sem vinnur að því að koma á fót fagfjárfestasjóði sem fjárfesta mun í rafmyntum og bálkakeðjutækni.

„Ég naut mín vel á íslenskum fjármálamarkaði og starfaði með afar góðu fólki hjá Fossum mörkuðum. Ég hef mikla trú á rafmyntum sem eignaflokki og tel að þar verði mesti vöxturinn á komandi árum,“ segir Daði.

Bitcoin hefur hækkað mikið á undanförnum árum en sveiflurnar eru miklar. Rafmyntin hefur rokið upp um ríflega 750 prósent frá því um miðjan mars 2020 en lækkað um þriðjung frá miðjum nóvember. Daði segir að eðlilegt sé að það taki tíma fyrir verð á nýjum eignaflokki að ná kjölfestu en stóra myndin sé að verðið fari hækkandi.

„Það eru mýmörg dæmi þess að fólk eigi erfitt með að gera sér í hugarlund að heimurinn muni breytast hratt innan tíðar. Ummæli Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, frá árinu 1998 eru lýsandi dæmi og eldast ekki vel. Hann sagði að árið 2005 eða svo myndi það liggja fyrir að áhrif internetsins á hagkerfið væru ekki meira en faxtækisins. Ég tel að rafmyntir muni sækja í sig veðrið og verði notaðar í miklum mæli,“ segir Daði.

Fjölmörg dæmi erlendis

Hann segir að þótt hann sé fyrsti á Íslendingurinn sem hætti að starfa á fjármálamarkaði til að stýra rafmyntasjóði séu fjölmörg dæmi um það erlendis, svo sem í Bandaríkjunum og Bretlandi. „Ég horfi til þess að kynna rafmyntir fyrir hinum hefðbundna fjármálaheimi. Ég finn að það er mikill áhugi á þeim en fram að þessu hafa Íslendingar ekki getað leitað til margra með sérþekkingu.“

Daði rekur upphaf þess að hann fór að gefa rafmyntum gaum til þess að hann mátti ekki fjárfesta í skráðum verðbréfum innanlands vegna starfa hans á fjármálamarkaði. Hann fór því að kynna sér eignamarkaði erlendis fyrir fjórum árum.

Verðbréfasalinn fyrrverandi segir að fernt hafi slegið sig: skuldabréf gáfu litla ávöxtun vegna þess hve stýrivextir voru lágir, hlutabréfamarkaðir voru hátt verðlagðir í sögulegu ljósi, skuldasöfnun ríkja var vaxandi vandamál og seðlabankar Bandaríkjanna og evru­svæðisins prentuðu peninga í miklum mæli.

„Í Bandaríkjunum hefur peningamagn í umferð aukist um 40 prósent á tveimur árum,“

„Í Bandaríkjunum hefur peningamagn í umferð aukist um 40 prósent á tveimur árum,“ segir hann og bendir á að verðbólga mælist 7,5 prósent í Bandaríkjunum. Hún hafi ekki verið hærri í yfir 40 ár.

Daði segir að horfur fyrir íslenska hagkerfið séu mun bjartari því hérlendis hafi peningaprentun ekki verið beitt í miklum mæli til að takast á við bankahrunið 2008 og Covid-19 heimsfaraldurinn.

Í ljósi ofangreinds horfði Daði til þess að fjárfesta í hrávörum sem ekki væri hægt að prenta meira af og í kjölfarið uppgötvaði Daði bitcoin. Það verður, að hans sögn, einungis hægt að grafa eftir 21 milljón af bitcoin og nú þegar sé búið að grafa eftir tæplega 19 milljónum.

Ekki verið að svindla á fólki

„Með bitcoin var í fyrsta skipti hægt að flytja verðmæti á internetinu milli fólks án milligöngu fjármálakerfisins. Jafnframt tryggði tæknin að ekki væri hægt að fjölfalda verðmætin. Kóðinn að baki bitcoin er öllum opinn og því má treysta því að það sé ekki verið að svindla á fólki með einum eða öðrum hætti. Í upphafi, janúar 2009, var myntin verðlaus en eftir því sem fleiri tóku að grafa eftir henni og nota með einum eða öðrum hætti jókst virðið.“

Daði segist líta á bitcoin einkum sem eignaflokk en einnig sem greiðslukerfi. Auk þess sé verið að vinna margs konar kerfi ofan á bitcoin sem auki notagildi rafmyntarinnar. Til að mynda sé verið að vinna áhugaverðar lausnir þar sem tekið sé veð í bitcoin.

Aðspurður hvort hann líti á bit­coin sömu augum og gull sem fjárfestar líti á sem örugga eign þegar óvissa er mikil á fjármálamörkuðum segir Daði að rafmyntin hafi nokkra kosti umfram gull: Það sé auðveldara að flytja bitcoin á milli staða, auðveldara að brjóta það í smærri einingar ef þurfa þyki, það kosti ekkert að geyma rafeyri og hægt sé að staðfesta hver eigi hvert bitcoin í raun og veru. „Það má því segja að bitcoin sé betri eign en gull,“ segir Daði og nefnir að mikil eftirspurn sé eftir bitcoin.

Verðþróun í takt við tæknifyrirtæki

Að hans sögn hefur verðþróun bitcoin verið meira í takt við verðþróun tæknifyrirtækja á hlutabréfamarkaði en eignaflokk sem fjárfestar sækja í til að draga úr áhættu eins og gull og Bandaríkjadalur. Verðgildið lækkaði til dæmis mikið þegar seðlabankar hófu að sýna aukið peningalegt aðhald og fjárfestar sóttu í kjölfarið í öruggari eignir.

„Í ljósi mikillar peningaprentunar er hjákátlegt að líta á Bandaríkjadal sem örugga eign,“ segir Daði. „Hagstjórn Bandaríkjanna er algjörlega ósjálfbær enda hefur ríkið einungis skilað afgangi af ríkisfjármálum fjórum sinnum á síðustu 50 árum, síðast árið 2001,“ bætir hann við.

Bitcoin hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir hve orkufrekt er að grafa eftir rafmyntinni. Fram hefur komið í fjölmiðlum um 0,6 prósent af allri orkunotkun í heiminum fari í námugröft eftir rafmyntum.

Daði segir að í bitcoin felist raunverulegt virði fyrir fjölda fólks og því sé ekki verið að ganga á náttúruauðlindir að óþörfu. Jafnframt krefjist bankakerfi heimsins mikillar raforku. Í ríkjum þar sem mannréttindi séu virt að vettugi komi bitcoin til dæmis að góðum notum. Slík ríki geti lokað bankareikningum þeirra sem þeim hugnast ekki en spilltir stjórnmálamenn geti aldrei lokað á bitcoin óvildarmanna sinna.

Fram kom í fjölmiðlum á mánudag að stjórnvöld í Kanada hefðu ákveðið að beina þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að frysta eða loka bankareikningum þeirra sem fjármagni eða styðji við ólögleg mótmæli gegn Covid-19 skyldubólusetningu og sóttvarnareglum í landinu.

Daði segir að í fátækum löndum geti það reynst fólki erfitt að opna bankareikninga en ef það eigi snjallsíma geti það hæglega eignast bitcoin.

Rangt að glæpamenn noti rafmyntir í miklum mæli

Daði segir að það sé alrangt að glæpamenn noti rafmyntir í miklum mæli. Greining Chainanalysis leiddi í ljós að um 0,34 prósent af veltunni mætti rekja til glæpa. Til samanburðar telji Sameinuðu þjóðirnar að tvö til fimm prósent af landsframleiðslu í heiminum megi rekja til peningaþvættis og glæpa.

Að hans sögn sé óskynsamlegt fyrir glæpamenn að nota bitcoin því allar færslur eru skráðar. Komist lögregla yfir veskið þeirra sé auðvelt að rekja allar millifærslur.

Verðmeta má bitcoin eins og samfélagsmiðla

Að sögn Daða er það þekkt leið til að meta virði bitcoin að horfa til Metcalfes-lögmálsins sem miðar við að virði hvers netkerfis, eins og til dæmis samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter, sé jafnt fjölda þeirra sem nýta það í öðru veldi. „Miðað við það á bitcoin enn mikið inni,“ segir hann.