Framleiðsla á rafmyntinni bitcoin er svo orkufrek að hún jafnast á við orkunotkun Argentínu og er litlu minni en Noregs. Ef bitcoin væri land, væri í hópi þeirra 30 ríkja heim sem nota mesta raforku. Þetta er niðurstaða rannsóknar Cambridge-háskóla í Bretlandi á raforkukostnaði við að „grafa eftir“ rafmyntinni eins og það er kallað.
Samkvæmt vísindafólki við háskólann fer sem svarar 121,36 teravattstundum af rafmagni á ári í að framleiða bitcoin. Til samanburðar má nefna að árið 2019 nam heildarraforkunotkun á Íslandi 19.489 gígavattstundum samkvæmt Orkustofnun en eitt terravatt er þúsund gígavött. Kárahnjúkavirkjun framleiðir um 4600 gígavattstundir af rafmagni á ári.
Búast má við því að raforkunotkunin aukist ef verð á bitcoin heldur áfram að hækka líkt og það hefur gert undanfarin misseri. Í gær greindi bílaframleiðandinn Tesla frá því að hefði keypt bitcoin fyrir 1,5 milljarða dollara og hygðist taka við greiðslum með myntinni á komandi misserum. Í dag er einn bitcoin metinn á rúmar 5,6 milljónir íslenskra króna.
Líkt og gefur að skilja er hærra verð fyrir bitcoin hvati til þeirra sem grafa eftir henni til að gera það í ríkari mæli. Til að grafa eftir bitcoin þarf gríðarlega öflugar tölvur sem þurfa mikið rafmagn til að gera flókna útreikninga til að staðfesta viðskipti með myntina.
Þetta er ekki eitthvað sem mun breytast
„Það liggur í hönnun bitcoin að hún krefst mikillar raforku. Þetta er ekki eitthvað sem mun breytast í framtíðinni nema að hún falli mjög í verði,“ segir Michel Rauch hjá Cambridge-háskóla sem fór fyrir rannsókninni.