„Þó svo að ráðherra handvelji ekki viðskiptavini orkufyrirtækja, er augljóst í mínum huga að við eigum ekki að forgangsraða raforkusölu til fyrirtækja í rafmyntagreftri.“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

„Við erum með háleit markmið í loftslagsmálum. Okkur liggur á að ná þeim. Ég er að róa að því öllum árum að heimili og fyrirtæki knýi farartæki með endurnýjanlegri orku. Það er mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og því þurfum við að forgangsraða henni. Í mínum huga er langur vegur frá því að námugröftur sé forgangsmál,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

Fram hefur komið í fréttum að Landsvirkjun hafni öllum beiðnum um frekari raforkukaup frá fyrirtækjum sem stundi rafmyntavinnslu, en eftirspurn eftir raforku til slíkrar vinnslu hefur margfaldast eftir að Kína bannaði gröft eftir rafmyntum í maí síðastliðnum. Landsvirkjun hafnar öllum slíkum beiðnum, vegna þess að raforkukerfið er fulllestað um þessar mundir.

Viðskiptavinir Landsvirkjunar sem kosið hafa mestan sveigjanleika í samningum um orkukaup, þar með talin stóriðjan, mega búast við takmörkunum á afhendingu raforku. Landsvirkjun hefur sagt að vegna þurrkatíðar hafi staðan í vatnsbúskap fyrirtækisins ekki verið verri í sjö ár. Hún sé sérstaklega slæm á Þjórsársvæðinu, sem er stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar.

Mun ekki byggja nýjar virkjanir fyrir bitcoin

Landsvirkjun mun ekki byggja nýjar virkjanir til þess að mæta orkuþörf svo hægt sé að grafa eftir rafmyntum, að því er Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur sagt við Fréttablaðið. Um sé að ræða illfyrirsjáanlegan markað.

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, hefur sagt við Fréttablaðið að rafmyntavinnsla krefjist mikillar raforku og tölvubúnaðar, sem sé með tiltölulegan skamman líftíma. „Búnaðurinn úreldist á nokkrum árum og því er þörf á reglulegum fjárfestingum til að viðhalda starfseminni. Þessar tíðu fjárfestingar gera það að verkum að reglulega gefst viðskiptavinum tækifæri til að endur­skoða staðsetningu með tilliti til hagstæðustu raforkusamninga hverju sinni. Viðskiptavinir gagnaveranna eru margir afar kvikir og samkeppnin um þá hörð,“ sagði hún.

Háttsettur embættismaður innan Evrópusambandsins hefur kallað eftir því að ESB banni helstu aðferðina sem nýtt er til að grafa eftir rafmyntinni bitcoin og geldur varhug við því hve hátt hlutfall af endurnýjanlegri orku fari í námugröft eftir rafmyntum, að því er fram kom í Financial Times fyrir skemmstu.

Erik Thedéen, varastjórnarformaður Evrópsku verðbréfamarkaðs-­eftirlitsstofnunarinnar, sagði að bitcoin gerði það að verkum að erfiðara væri að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Hann lagði til að stefnusmiðir Evrópusambandsins myndu banna orkufrekan námugröft (e. proof of work) og með þeim hætti beina atvinnuveginum í námugröft sem krefst minni orku (e. proof of stake).

Mun færri tölvur þurfa að samþykkja viðskipti með rafmyntir þegar starfsemin krefst ekki jafn mikillar orku. Upplýst hefur verið um að ethereum, næststærsta rafmyntin, færi sig í orkuminni námugröft í júní.

Thedéen sagði að ef ekki yrði gripið í taumana myndi endurnýjanleg orka vera nýtt í auknum mæli til að framleiða bitcoin, í stað þess að hefðbundin þjónusta hætti að vera knúin af rafmagni, sem framleitt sé með kolum.

Námugröftur þarf meira rafmagn en Noregur

Námugröftur eftir rafmyntum nýtir um 0,6 prósent af allri orkunotkun í heiminum og gengur fyrir meira rafmagni en Noregur nýtir. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Fyrirtæki í rafmyntavinnslu hafa brugðist við vaxandi gagnrýni á að fjöldi þeirra sé knúinn af óumhverfisvænu rafmagni, og því að Kína – þar sem stór hluti af raforkuvinnslu fer fram með kolum – bannaði námugröft, með því að nýta í ríkari mæli endurnýjanlega orku. Þannig hefur námugröftur aukist í löndum þar sem mikið er af vind- og sólarorku, eins og í Svíþjóð og Noregi.

Sænskir reglusmiðir segja, að samkvæmt mati frá Cambridge-háskóla, þurfi jafn mikla orku við að grafa eftir einu bitcoin og að keyra meðalstóran rafmagnsbíl 1,8 kílómetra.