Við erum velflest orðin langeyg eftir því að hjarðónæmi náist og samskipti við okkar nánustu geti komist í eðlilegt horf. Þetta ár hefur verið ein samfelld áskorun á öllum sviðum þar sem reynt hefur á samfélagslega innviði og persónulegt úthald okkar. Þessu höfum við öll fundið fyrir. Hinum efnahagslegu áhrifum heimsfaraldursins hefur þó verið misskipt. Við því hefur verið brugðist með margvíslegum hætti og á nýju ári er mikilvægt að gæta þess að í viðspyrnunni fram undan verði allir með.


Hraðferð í skjól


Fjármálafyrirtæki brugðust skjótt við til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins á heimili og fyrirtæki og komust að tímabundnu samkomulagi um greiðslufresti á lánum fyrirtækja strax í mars. Byggði fyrirkomulagið á því markmiði að tryggja skjóta afgreiðslu á miklum óvissutímum. Gekk fyrirkomulagið vel á gildistíma samkomulagsins og voru tæplega tvö þúsund fyrirtæki með um 17% fyrirtækjaútlána og ríflega fjögur þúsund heimili með greiðsluhlé á sínum lánum þegar mest var á vordögum. Fækkað hefur verulega beiðnum um greiðsluhlé og hefur fyrirtækjum með greiðslufresti fækkað í þrjú hundruð og tuttugu og heimilum í sex hundruð. Fjármálafyrirtækin leggja mikla áherslu á að vinna með sínum viðskiptavinum að því að koma þeim í gegnum tekjumissi og inn í viðspyrnuna sem við sjáum fram á að geti hafist á nýju ári.


Stafræn fjármálaþjónusta


Fjármálafyrirtækin hafa um langt skeið verið leiðandi í stafrænu þjónustuframboði. Þau voru því vel undir það búin að vinna með sínum viðskiptavinum á tímum sam­komu­banns. Stærsti hluti beiðna um greiðslufresti var afgreiddur í samkomubanni og nýstárlegum leiðum beitt við afgreiðslu þeirra með miklum tímasparnaði fyrir alla hlutaðeigandi. Þar skipti miklu máli ákvörðun Alþingis um að heimila rafræna afgreiðslu skilmálabreytinga með samþykkt bráðabirgðaákvæðis þar um. Er nú unnið að því að þessi rafrænu ferlar verði varanlegir.


Mikilvæg úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja

Nauðsynlegt verður að auka fjárfestingu hratt og örugglega á nýju ári og styðja þannig við atvinnusköpun og bætt lífskjör almennings.

Stjórnvöld líkt og fjármálafyrirtæki hafa gripið til margvíslegra skaða­minnkandi úrræða fyrir þá sem hafa orðið fyrir mesta efnahagslega högginu af heimsfaraldrinum. Veitt hafa verið tæplega 900 stuðningslán af fjármálafyrirtækjum með 85-100% ábyrgð ríkissjóðs eftir fjárhæðum. Þá hafa úrræði á borð við hlutabótaleið, stuðning við greiðslu launa á uppsagnarfresti, lokunarstyrki, heimild til úttektar séreignarsparnaðar og fleira mýkt áfallið. Veruleg lækkun vaxta hefur einnig skipt miklu og leitt til mikillar lækkunar á greiðslubyrði heimila.


Útlán á tímum heimsfaraldurs


Útlán vegna fasteignakaupa hafa aukist hratt á undanförnum mánuðum. Heimilin eru jafnframt að endurfjármagna húsnæðislán sín í töluverðum mæli og nýta sér hagstæðari kjör sem nú standa til boða. Stafrænar lausnir hafa jafnframt gert þennan feril einfaldari. Því er ljóst að heimilin fylgjast vel með og hika ekki við að breyta lánaformi og skipta um lánveitanda eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Efnahagssamdráttur og aukin óvissa hefur á móti dregið úr eftirspurn fyrirtækja eftir lánum. Nauðsynlegt verður að auka fjárfestingu hratt og örugglega á nýju ári og styðja þannig við atvinnusköpun og bætt lífskjör almennings.

Fjármálafyrirtækin standa traustum fótum og eru vel fjármögnuð. Þau munu því gegna lykilhlutverki í þeirri viðspyrnu sem fram undan er þegar draga fer úr óvissu. Á nýju ári mun birta til með bóluefni – þá verður enn mikilvægara en áður að stjórnvöld leiði samtal við atvinnulíf og verkalýðshreyfingu til að tryggja vel heppnaða viðspyrnu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.