Birta lífeyrissjóður, sem var fimmti stærsti hluthafi Icelandair Group með rúmlega 7 prósenta hlut, ákvað að taka ekki þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins sem lauk í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sjóðsins.

„Að gefnu tilefni vill Birta lífeyrissjóður koma því á framfæri við sjóðfélaga að sjóðurinn tók ekki þátt í nýafstöðnu útboði Icelandair. Samstaða var um þessa ákvörðun bæði hjá starfsmönnum og stjórn eftir ítarlega skoðun á málinu þar sem mörg fagleg sjónarmið vógust á,“ segir í tilkynningunni.

„Við óskum starfsmönnum, stjórnendum og stjórn Icelandair til hamingju með vel heppnað útboð. Eins og útboðsgögn báru með sér hefur mjög mikilvægt skref verið stigið í þeirri viðleitni að tryggja rekstur og framtíð félagsins við erfiðar aðstæður.“

Útgefið hlutafé Icelandair mun þynnast niður í um 19 til 21 prósent eftir útboðið og ef nýir fjárfestar félagsins nýta sér þau áskriftarréttindi sem fylgja með bréfunum, sem hægt verður að gera í einu lagi eða skrefum til allt að tveggja ára, þynnist eignarhlutur hluthafa niður í allt að 16 prósent.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, skilaði inn skuldbindandi tilboði fyrir umtalsverðum eignarhlut í flugfélaginu, og Gildi lífeyrissjóður tók einnig þátt. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem var með 11,8 prósent hlut fyrir útboðið, tók hins vegar ekki þátt í útboðinu.